04.03.1924
Neðri deild: 14. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

40. mál, útflutningur hrossa

Atvinnumálaráðherra (KlJ):

Eins og hv. þdm. vita, þeir er sátu á síðasta þingi, þá kom fram, frá landbn., frv. um að breyta lögunum um útflutning hrossa, þar sem stjórninni var heimilað, ef nauðsyn bæri til, að leyfa útflutning á tímabilinu frá 1. nóv.–1. júní. Ástæðan var sú, að stjórnin hafði þegar, áður en þing kom saman, og að nokkuru leyti eftir það, veitt slíka undanþágu og mikið af hrossum selst vel, landsmönnum til stórs hagnaðar.

Frv. var samþ. hjer, í þessari hv. deild, en því var vísað frá í hv. Ed. með rökstuddri dagskrá, með þeirri yfirlýsing, að lögin væru óþörf, þar eð stjórnin gæti altaf veitt undanþágu, með því að gefa út bráðabirgðarlög, ef nauðsyn krefði.

Ástæðan fyrir frv. því, sem nú liggur fyrir, er sú, að í nóv. síðastl. snjeri kaupmaður einn hjer í bænum, Garðar Gíslason, sjer til stjórnarinnar með beiðni um útflutningsleyfi. Að undangengnu samtali sendi hann stjórninni brjef, dags. 7. nóv. f. á., þar sem hann fór fram á að mega flytja út hross í nóv.–des. síðastl.

Þar sem stjórninni var kunnugt um, að góður markaður var fyrir íslensk hross erlendis, en hinsvegar hafði verið afarslæmur heyskapur um sumarið bæði á Norður- og Austurlandi — Norðurland eitt kemur að vísu hjer til greina — þá áleit hún, þar sem hrossin voru fullkomlega útflutningshæf, stórhagnað fyrir landið að geta selt, þó ekki væri nema nokkur hundruð hross til útlanda. Ennfremur hafði einn hv. fyrv. þm., Gunnar Sigurðsson, komið með samskonar beiðni.

Af þessum ástæðum gaf jeg út bráðabirgðalög í þessu skyni 21. nóv. f. á. Komu síðan 318 hross til skoðunar, og voru 24 af þeim kyrsett, voru of gömul eða gölluð á annan hátt, 54 voru seld til Danmerkur, 240 til Englands.

Sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða meir um málið, en jeg leyfi mjer, þó lögin sjeu þegar fallin úr gildi, samkv. stjórnarskránni, að leggja málið fyrir Alþingi, og vil leggja til, að frv. verði vísað, að umr. lokinni, til hv. landbn., og geri hún síðan þær till., sem henni finst ástæða til.