23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

1. mál, fjárlög 1925

Jóhann Jósefsson:

Það mun hlýða, að jeg segi nokkur orð um brtt. mína á þskj. 417, XI, um 10 þús. króna fjárveiting til erindrekstrar í Miðjarðarhafslöndun um.

Fyrir þinginu liggur brjef, sem undirskrifað er af öllum bankastjórum beggja bankanna, þar sem þeir mælast til þess, að þingið veiti fje í þessu skyni. Skal jeg ekki þreyta háttv. deild með því að lesa upp umrætt brjef, en geta má þess, að þar er kveðið ríkt á um, að nauðsyn beri til, að slíkur erindreki verði skipaður.

Í fyrra varð samkomulag um það milli beggja bankanna, Fiskifjelagsins og stjórnarráðsins sem fjórða aðilja, að sendur var maður til Spánar, til þess að athuga þar markaðshorfur o. fl. Því að það liggur í augum uppi, að Miðjarðarhafslöndin eru þau lönd, þar sem við höfum einna mestra hagsmuna að gæta, og má segja, að það sje nær því óforsvaranlegt af þingi og stjórn, að hafa ekki haft þar að minsta kosti einn fastan erindreka, því að þess hefði verið full þörf, og það jafnvel þótt þeir hefðu verið hafðir þar margir, því að svo mikil nauðsyn hefir oss verið betri sambanda, þar sem óhætt má segja, að við sjeum orðnir alt að 100 árum á eftir tímanum í að fylgjast með á þessum sviðum. Og ef við höldum nú áfram „að fljóta þannig sofandi að feigðarósi“, er mikil spurning, hvort okkur yrði ekki bægt frá í þessum löndum af duglegri keppinautum.

Það er aldrei nema satt, að við urðum fyrstir til að koma fiskverkuninni í sæmilegt horf, en þess megum við ekki ganga duldir, að eins og við lærum af öðrum þjóðum, þá læra og aðrar þjóðir af okkur, það sem af okkur verður lært, og geta þannig orðið okkur hættulegir keppinautar. Hafa nú Norðmenn ekki látið á því standa að læra af okkur fiskverkun, og hafa þeir lært hana svo, að nú segja kunnugir menn, að mismunurinn á norskum og íslenskum fiski sje orðinn sáralítill og sje altaf að minka. Áður var norskur fiskur 5–10 pesetum neðar en íslenskur, en mun nú orðinn nær því alveg jafn. Það er því til þess að svíkja okkur sjálfa að ganga fram í þeirri blindu trú, að enginn geti komið með jafngóðan fisk á markaðinn og við. Þó við höfum nú kannske betri skilyrði að sumu leyti til þess að verka fisk en t. d. Norðmenn, þá höfum við þeim mun verri samgöngur og verri upplýsingarstarfsemi, sem er lífsnauðsynleg í samkepninni. Að fylgjast með, hvað gerist í þessum efnum, er því alveg óumflýjanlegt, og eina leiðin til þess er sú, að hafa erindreka í neysluhjeruðunum, til þess að vita, hvernig varan þarf að vera til þess að hún líki.

Svo nákvæmt eftirlit í þessum efnum hafa Norðmenn, að í miðjum marsmánuði síðastl. vita þeir, hve mörg skippund af fiski búið er að senda út hjeðan í febrúarlok og hvert sá fiskur hafi farið. Þeir hafa svona góðar gætur á keppinautunum.

Þetta mál, sem hjer er um að ræða, er ekkert nýtt, því að fyrir löngu hefir verið komið auga á hina miklu nauðsyn, sem á því er að hafa erindreka í Miðjarðarhafslöndunum, og meira að segja höfum við haft erindreka þar um tíma, eins og flestum mun kunnugt, og hygg jeg, að maður sá, sem það starf hafði á hendi, hafi haft mjög glögt auga fyrir því, sem gera þurfti, og bera skýrslur hans þess ljósan vott. En starf þetta var þá mjög misskilið; var það gert að blaðamáli, kallað „tildurherrann“ o. fl., þrátt fyrir það, þó að það væri beinlínis hagsmunamál fyrir mikinn hluta þjóðarinnar. Því að það er beinlínis lífsnauðsyn að hafa erindreka í þessum löndum, sem athugar, hvað gerist í þessum efnum og sendir skýrslur jafnóðum til landsins.

En á hitt vildi jeg minnast, að almenningur hefir ekki haft nærri nógu greiðan aðgang að skýrslum þeim, sem erindrekinn hefir gefið. Þær hafa alls ekki verið birtar almenningi jafnóðum, heldur hafa þær verið geymdar þangað til þær hafa verið orðnar svo gamlar, að þær hafa mátt kallast forngripir, þegar almenningur hefir fengið innihald þeirra. Ef slíkar skýrslur eru geymdar í stjórnarráðinu eða verslunarráðinu, eða öðrum slíkum stöðum, í 2–3 mánuði áður en þær eru birtar, þá eru þær orðnar langt á eftir tímanum og koma að litlum notum, móts við það, sem annars hefði orðið; skýrslurnar þarf að birta minst vikulega. Það er skylda stjórnarinnar að sjá um, að skýrslur um markaðshorfur og verð fáist nógu oft og sjeu þegar í stað birtar, og skýrslurnar eiga að sendast í símskeytum, til þess að þær komi nógu fljótlega. Því aðeins er hægt að hafa not af upplýsingum þeim, sem skýrslurnar veita mönnum, að með þær sje farið svipað því, sem hjer er sagt, en ekki eins og hingað til hefir við gengist. Það er sem sje lítil huggun fyrir okkur, þó við lesum eftir 4–5 mánuði, hvernig markaðshorfur hafi verið suður Spáni og hvernig best hefði verið að haga fisksölunni á þessum og þessum tíma. En stjórnin hefir alls ekki gætt skyldu sinnar í þessu efni, og mjer finst því alls ekki hafa verið nægjanlega mikill gaumur gefinn, hve mikla þýðingu tíðar og ábyggilegar markaðsfregnir hafa fyrir þennan atvinnuveg.

Svo er annað atriði, sem mjer finst mjög athugavert. Það hefir verið rætt um það í blöðunum, og kemur líka fram í skýrslu erindrekans sjálfs, að það hefir verið nokkur tregða á því hjá stjórninni að veita þessum manni erindisbrjef, svo sýnilegt væri, að hann væri ekki neinn prívatnjósnari, heldur sendimaður hins íslenska ríkis. Jeg vildi því gjarnan fá upplýsingar um það, hvernig á þessari tregðu hefir staðið og hvaða hættu stjórninni hefir fundist það hafa í för með sjer að veita manni þessum erindisbrjef. En það er sýnilegt, að það hlýtur að hafa verið mjög mikill bagi fyrir manninn að hafa ekkert erindisbrjef.

Hv. 2. þm. S.-M. (IP) mintist á þessa brtt. og sagðist efast um, að hann treysti sjer til að fylgja henni. Mjer koma þau orð háttv. þm. nokkuð undarlega fyrir, þar eð hann er að nokkru leyti fulltrúi fyrir sjávarútveginn og virðist yfirleitt hafa mikinn áhuga á þeim málum. Landið flutti út síðastliðið ár um 257900 skippund af saltfiski, og mjer finst því undarlegt, ef það borgar sig ekki að verja 10–12 þúsund krónum á ári til þess að útvega framleiðendunum nauðsynlegar upplýsingar um markaðshorfur fyrir þessa vöru. Ef það mál er ekki þess vert að veita þess vegna nokkurt fje þá veit jeg ekki, til hvers hægt er að segja að borgi sig að verja fje. Fiskútflutningurinn gefur svo miklar tekjur í ríkissjóð, að ekki er nema sanngjarnt, að nokkru fje sje varið til þess að fá sem best verð fyrir fiskinn. Útflutningsgjaldið var 1922 rúmar 800000 krónur, og það var mest af fiski.

Hv. 2. þm. S.-M. var í vafa um, hvaðan það fje ætti að koma, sem þyrfti í viðbót við þessar 10 þús. krónur, sem ætlast er til að ríkissjóður leggi fram. Í því sambandi vil jeg taka það fram, að jeg mundi alls ekki átelja stjórnina fyrir það, þótt hún greiddi meira fje í þessu skyni en ætlast væri til í fjárlögunum, og þar að auki býst jeg við, að hægt væri að fá fje annarsstaðar frá. T. d. býst jeg við, að bankarnir mundu fáanlegir til að leggja fram fje til slíks erindrekstrar, því að jeg geri ráð fyrir, að þeir hafi búist við því þegar þeir leituðu til þingsins um að maður yrði sendur, að leitað yrði til þeirra með að leggja fram eitthvert fje í þessu skyni, eins og áður hefir átt sjer stað. Annars má ekki skilja orð mín svo, að jeg vilji að sem mestu sje eytt í þennan erindrekstur, því að jeg álít einmitt, að ekki þurfi að eyða mjög miklu fje, og mjer finst ekki ólíklegt, að sendiferðir þær, sem áður hafa verið farnar, hafi verið óþarflega dýrar. En þótt svo væri, þá sannar það alls ekki, að það sje neinn óþarfi fyrir okkur að hafa einn erindreka í landi, sem tekur á móti mestum hluta aðalútflutningsvöru okkar.

Jeg get auðvitað ekkert sagt um, hvernig fara muni um þessa brtt. í háttv. deild, þó þetta virðist vera sjálfsagt mál, en mjer virðist það væri óverjandi af mjer sem sjávarútvegsmanni að láta hjá líða að gera tilraun til að fá þingið til að veita fje til þessa bráðnauðsynlega erindrekstrar.

Þá vil jeg minnast nokkrum orðum á 17. lið 16. greinar fjárlagafrumvarpsins, um styrk til Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga.

Þegar hv. fjvn. hafði fjárlagafrv. til meðferðar, fjekk hún beiðni frá ungfrú Ástu Sighvatsdóttur um styrk til þess að halda uppi kenslu í vefnaði. Jeg sje, að háttv. nefnd hefir lagt það til, að Samband íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga veiti ungfrú Ástu einhvern styrk. Þetta finst mjer altof óákveðið, og því alveg lagt á vald Sambandsins, hvern styrk ungfrú Ásta fær. Ungfrú Ásta hefir unnið mjög þarft verk, því þessi skóli, sem hún hefir haldið uppi, hefir gert stúlkum mjög hægt fyrir með að afla sjer fræðslu í vefnaði. Um gagnsemi slíkrar fræðslu þarf ekki að eyða neinum orðum, því allir vita, hve nauðsynlegt það er fyrir stúlkur að kunna slíkt þegar þær eru orðnar húsmæður, auk þess, sem slík kunnátta kemur í veg fyrir mikil útlend vefnaðarvörukaup, og hjer er því um eina grein íslensks iðnaðar að ræða.

Nefndin hefir ekki komið fram með neina ákveðna tillögu um styrk til ungfrú Ástu, en hefir þó fyllilega viðurkent, að hún ætti styrk skilið, með því að leggja til, að Samband heimilisiðnaðarfjelaganna legði fram einhvern styrk handa henni, og nefndin ætlar heimilisiðnaðarfjelögunum 6000 kr.

Háttv. neðri deild ætlaði heimilisiðnaðarfjelögunum 6000 kr., og þar frá átti að draga 2000 kr. handa Halldóru Bjarnadóttur, en það fór þó svo, að Halldóra fjekk sjerstakan styrk, og hefir því ólíkt betri aðstöðu en ungfrú Ásta. Þess vegna leyfi jeg mjer að bera hjer fram skriflega brtt., þess efnis, að Samband heimilisiðnaðarfjelaganna greiði henni 1200 kr., með því skilyrði, að hún haldi uppi kenslu í vefnaði ekki skemur en 6 mánuði. Það er miklu ákveðnara og betra fyrir ungfrú Ástu að eiga þennan styrk vísan. Jeg tel víst, að háttv. fjvn. fallist á þessa brtt. mína, þar eð hún hefir viðurkent, að Ásta sje fyllilega styrks verð, og jeg vona, að háttv. deild fallist líka á þessa brtt. mína, því það má búast við, að þessi gagnlegi skóli verði að leggjast niður, ef hann fær engan styrk.