01.03.1924
Neðri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í C-deild Alþingistíðinda. (2570)

42. mál, einkasala á áfengi

Bjarni Jónsson:

Jeg skal taka það fram, að jeg er enginn sjerfræðingur í þeim greinum, sem hjer eru nú til umræðu, þó hv. flm. sjeu það máske, og vænti jeg því, að hv. þm. fyrirgefi mjer það, ef jeg segi eitthvað óviturlegt.

Eitt undrast jeg, sem hv. flm. (SvÓ) tók fram í ræðu sinni, það, að hann kvartaði yfir því, hvað niðurskurðurinn mætti mikilli mótspyrnu hjer á hinu háa Alþingi. Jeg kalla það ganga vel, þar sem nýlega hefir verið samþ. í þessari hv. deild með 24:4 atkv. að svíkja loforð sjálfs þingsins og undirskrift konungs. Mjer finst, að hann (SvÓ) ætti að geta verið ánægður í hjarta sínu með þau afrek.

Og ljós vottur þess, hvernig komið er, er þetta, að nú á að nema burt þá tryggingu, sem fólki er veitt í því, að lyfjabúðir hafi sæmileg lyf.

Þetta er læknamál, og lá áður undir landlækni; hafði hann eftirlitið á hendi, og gekk þá alt vel. Síðan var starf þetta fengið í hendur sjerstökum lyfjafræðing, og var því þar náttúrlega vel borgið og ekki ótryggilegar. En nú á að gera sjer hægt fyrir og leggja eftirlitið undir forstjóra landsverslunar. (SvÓ: Nei!) Jú. — Þetta er góður vottur þeirrar menningarstefnu, sem nú virðist ríkja í þessari háttv. deild. Það gæti þá vel verið, að ýmsum verði að minnast orða Einars Þveræings um konungaskifti „at þeir eru újafnir, sumir góðir, en sumir illir.“ Það hefði þá verið óþarfi af stjórninni að skipa sjerstakan eftirlitsmann, í stað þess að fela forstjóranum alt á hendur. Sjúklingar hefðu þá átt undir honum, hvort lyfin væru góð og rjett keypt. Hvað það snertir að hafa lyfjafróðan mann til aðstoðar í landsverslun, þá gæti jeg hugsað, að til væri sá lyfjafræðingur, er liti svo stórt á sig, að hann vildi ekki láta skipa sjer að vera undirtylla í landsverslun. Hitt er auðvitað það rjetta, að greina að eftirlitið og vínverslunina, og er sjálfsagt að gera það, þó það sje ekki í anda þessarar nýju menningarstefnu.

Jeg ætla ekki að fara langt inn á einstök atriði. Þó vil jeg benda nefnd — sem jeg býst við að verði mentamálanefnd, úr því hin málin fóru til allshn. — á það, að rjett sje, að eftirlitsmaðurinn hafi með höndum stórsölu, en kaupmenn hafi útsölu og borgi vissa upphæð í ríkissjóð í staðinn. Mundi ríkissjóður hafa langtum meira upp úr þessu en því svarar að spara laun tveggja til þriggja embættismanna. Annað ynnist líka með þessu: þá þyrfti ríkissjóður ekki að festa eins mikið fje í veltu, er varan væri ekki útveguð fyr en kaupandi hefði beðið um hana og trygging fyrir borgun eftir tvo til þrjá mánuði. Þetta fyrirkomulag er að öllu betra og tryggara. Það er blátt áfram búhnykkur, og er furða, að jafnmannmargt þing skuli ekki hafa dottið ofan á þetta. Þá væri rjett að draga úr áhættu ríkissjóðs af tóbakssölunni, gefa hana frjálsa öllum, sem vildu, en taka gróðann í hækkuðum tolli. Mundu menn þá fá ódýrara tóbak og borga ánægðir tollinn. En ríkissjóður losnaði við áhættu og þyrfti ekki að festa fje sitt, en fengi þó meiri tekjur. Jeg bendi hv. nefnd á þetta, ef hún vildi viðhafa svona gamaldags aðferðir í stað þessara nýju.

Þess má líka geta, að núverandi eftirlitsmaður hefir stofnað rannsóknarstofu, þar sem hann reynir efnasamsetningu lyfja, svo menn geti verið öruggir um, að þau sjeu rjett blönduð og hafi rjett gæði. Jeg skal ekki segja, nema forstjóri landsverslunarinnar kunni að fara með þessi áhöld. En annars mætti setja lyfjafræðing fyrir landsverslunina, og þá aftur kaupmann eða verslunarfróðan mann til þess að hafa á hendi eftirlitið.

Þetta eru almennir skraddaraþankar, sem jeg læt í ljós um leið og jeg þakka flm. fyrir þetta nýja mentafrvumvarp.