01.03.1924
Neðri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í C-deild Alþingistíðinda. (2581)

42. mál, einkasala á áfengi

2581Magnús Torfason:

Að því er snertir orð hæstv. forsrh. (SE), þá vil jeg taka það fram, að jeg lít svo á, að þar sem reglugerðin gamla hefir ekki verið endurnýjuð eftir að lög 4. apríl 1923 voru sett, þá sje hún í raun rjettri fallin úr gildi og því engin hegningarákvæði til á þessu sviði. Myndi það og fljótt koma í ljós, ef slík mál færu til dóms, að dómarar litu sömu augum á það mál. Að því er snertir lögin frá 1899, hvort þau sjeu úr gildi numinn, þá vil jeg vitna til 22. gr. í lögunum 1909. Þar segir svo:

„Með lögum þessum eru numin úr gildi þau ákvæði laga nr. 26, 11. nóv. 1899 og önnur lagaákvæði, er koma í bága við lög þessi.“ Hjer sjest það greinilega, að þau lagaákvæði í 1. 11. nóv. 1899, sem ekki koma í bága við lögin frá 1909, eru bráðlifandi eftir sem áður. Eins stendur í 23. gr. bannlaganna frá 1917. Sú grein hljóðar svo:

„Með lögum þessum eru numin úr gildi öll þau lagaákvæði, er koma í bága við þau.“ Jeg get ekki komist að annari niðurstöðu en þeirri, að þau lagaákvæði, sem menn deila á um hjer, hafi verið lifandi eftir 1909, enda notuð til ársloka 1915. Síðan hefir ekki þurft á þeim að halda, til þess undanþágulögin gengu í gildi. Þau hafa með öðrum orðum bara sofið.

Jeg skal annars taka það fram, viðvíkjandi þessu ákvæði um 10 lítra, að því fer fjarri, að jeg kæri mig um meiri vínaustur út um landið. Jeg virði þvert á móti þá viðleitni hæstv. stjórnar að reyna að hafa hemil á Bakkusi. En hinu verð jeg að halda fram, að þeir, sem hafa samið reglugerðina, hafa ekki farið eins kænlega að og æskilegt væri. Er full þörf á því að gera verslunina einfaldari og brotaminni, því ilt er, að þessi tekjulind ríkissjóðsins sje þurausin af of miklu mannahaldi við reksturinn.