02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í C-deild Alþingistíðinda. (2778)

115. mál, varnir gegn berklaveiki

Flm. (Klemens Jónsson):

Jeg hefi tvisvar haft tækifæri til þess í þessari hv. deild að skýra frá því, að jeg hefi samið frv. til laga um breyting á berklaveikislögunum og afhent það formanni fjhn. (JÞ), en að það hefði horfið. Var síðan lýst eftir því bæði af mjer og honum. Nú er það komið til skila; reyndist hjer sem oftar, að það var of vandlega geymt, því það fanst í skáp hv. fjhn.

Þó er þetta frv., sem hjer liggur fyrir, ekki það frv., því það fanst svo seint, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafði þegar látið semja þetta frv. En það er nálega samhljóða hinu frv., að einu atriði undanskildu, og að tilhlutun hæstv. fjrh. ber jeg frv. fram.

Jeg hefi undir umr. um fjárlögin bent á það, að kostnaðurinn við berklalögin er að verða þjóðinni algerlega ofvaxinn. Ætla jeg ekki að endurtaka það, sem jeg hefi um það sagt fyrir nokkrum dögum og er sjálfsagt öllum þm. í fersku minni. Mun jeg því láta mjer nægja mjög stutta framsögu að þessu sinni.

Berklaveikislögin frá 1921 eru ekki gömul, en hafa þó reynst afardýr í framkvæmdinni. Því eins og þau eru orðuð, náðu þau hjer um bil til allra berklaveikissjúklinga, sem á heilsuhæli hafa farið. Í vetur voru t. d., eins og jeg hefi áður getið um, aðeins 10 sjúklingar á Vífilsstöðum, sem ekki nutu styrks úr ríkissjóði. Lögin eru sem sagt svo orðuð, að óhjákvæmilegt er fyrir stjórnina að úrskurða, að dvalarkostnaður sjúklinganna á spítölum greiðist úr ríkissjóði.

Hjer er farið fram á breytingu á lögum þessum. Fyrst og fremst skal sjúklingurinn sjálfur greiða kostnaðinn, ef hann getur, annars sveitin. Þetta virðist sjálfsagt. Það er svo í öllum slíkum tilfellum, þegar menn verða fyrir óhöppum af veikindum eða öðrum orsökum, þá lendir það fyrst á þeim sjálfum, ekki aðeins heilsutjónið, heldur og fjártjónið. En þegar þá þrýtur fjeð, verður fyrst að leita til annara, þ. e. sveitar- og bæjarsjóða og ríkissjóðs.

Í þessu frv. er farið fram á að leggja legukostnaðinn fyrst og fremst á sjúklingana sjálfa, eftir megni, en því næst að skifta honum niður á ríkis- og sveitarsjóð, þannig, að hvor greiði 2/5 hluta hans. Ríkissjóður hefir hingað til greitt 3/5, og varð sá kostnaður ekki undir 350 þús. kr. undanfarið ár. Á þessum þrem mánuðum, sem liðnir eru af þessu ári, er búið að greiða liðugar 77 þús. kr. í þessu skyni, svo alt bendir á það, að kostnaðurinn verði ekki minni í ár.

Hinn áætlaði styrkur á fjárlagafrv., 100 þús. kr., hefir nú verið hækkaður upp í 200 þús. kr., eftir till. hv. fjvn., og skilst mjer, að hún vilji með því gefa í skyn, að hún sjái ekki ríkissjóði fært að fara lengra í þessu efni, og verður það, sem á vantar, að koma annarsstaðar frá, líklega samkv. þessu lagafrv., sem nefndinni var kunnugt um. Sýnist mjer því hv. fjhn. vera sammála bæði fyrv. stjórn og núv. Stjórn um það, að breyta þurfi lögunum, því að kostnaðurinn sje nú ríkissjóði um megn.

Raunar má það sama segja um sýslu- og bæjarsjóði, að þeir eru að sligast undir þessum gjöldum, að minsta kosti er svo hjer í Reykjavík. Virðist því ekki óeðlilegt, að öðruvísi væri skift niður.

Það var ákveðið með sjerstökum lögum frá 1923, hver gjöld sýslufjelaganna mættu mest vera til þessa. Er þeim ákvæðum haldið í lögum þessum.

Annars vil jeg taka það fram, að það er mín persónulega skoðun, að þótt þessi lög sjeu ekki gömul, þá sjeu þau ein af þeim mörgu lögum, sem þarfnast bráðra endurbóta. Því var til að undirbúa málið, og jeg telji vafalaust, að þeir hafi gert það svo vel sem föng voru á, þá virðist mjer kenna dálítillar fljótvirkni, sem þarf að endurskoða sem fyrst. Skýt jeg þessu til hæstv. stjórnar, því vitanlega er það alveg á hennar valdi. En heyrst hafa allmargar raddir í sessa átt.

Það er aðeins ein breyting á þessu frv. frá því sem var í mínu frv. Hún er sú, að framlag af opinberu fje skuli aðeins greidd til þeirra sjúklinga, sem hafa smitandi berkla. Hefir þetta atriði verið borið undir landlækni og er hann því samþykkur, eftir því sem jeg hefi heyrt. Verði þetta ákvæði samþ., falla sjúklingar, sem ekki hafa smitandi berklaveiki, undir ákvæði hinna almennu berklalaga.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um málið. Leyfi jeg mjer að æskja þess, að því verði, að þessari umr. lokinni, vísað til allshn.