02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í C-deild Alþingistíðinda. (2779)

115. mál, varnir gegn berklaveiki

Jakob Möller:

Jeg hefi ekki fengið tækifæri til að kynna mjer þetta frv., svo sem þyrfti, til að hafa rökstudd andmæli gegn því. En mjer dylst það ekki, að stefna þessa frv. gengur í þveröfuga átt við berklalögin frá 1921. Stefna þeirra laga var að reyna af öllum mætti að vinna bug á berklaveikinni. Stefna þessa frv. er sú, að ljetta byrðinni sem mest af ríkissjóði. Þetta tvent getur ekki samrýmst. Því meiri kostnaður sem lendir á sjúklingunum, því erfiðari verða framkvæmdir í þessu máli. Það var meining laganna frá 1921 að horfa ekki í kostnaðinn, þótt miklu væri til kostað, mundi það vega á móti því, ef hægt væri að bjarga mönnum frá berklaveikinni. En með þessu frv. er, eins og oftar, fremur hugsað fyrir hag ríkissjóðs en þjóðarinnar. Fyrst og fremst af þeirri ástæðu geri jeg ráð fyrir að vera á móti því.

Hv. flm. (KlJ) gat þess, að einhver atriði frv. hefðu verð borin undir landlækni. En jeg hefi ekki heyrt, að frv. í heild hafi verið borið undir þá menn, sem aðallega undirbjuggu berklavarnalögin. Að minsta kosti veit jeg um einn mann, sem undirbjó berklalögin 1921, sem nú alveg á síðustu stundu var ókunnugt um þetta frv. jeg tel því málið ekki vel undirbúið, enn sem komið er, og legg til að skjóta því til hefndar þeirrar, sem áður undirbjó málið.