29.03.1924
Efri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (2884)

110. mál, sparnaður við starfrækslu ríkisrekstrarins

Sigurður Eggerz:

Jeg skal taka það fram nú þegar, að jeg hefi enga trú á því, að mikill árangur verði af störfum þessarar nefndar, sem hjer er í ráði að skipa, þó að jeg muni greiða atkvæði með þessari tillögu. Og ástæðan til þess, að jeg hefi enga tröllatrú á því, að mikill árangur megi verða að þessu, er sú, að hjer í þinginu hefir verið reyndur sparnaður á öllum sviðum. En hver hefir árangurinn orðið? Það hefir hver togað í sinn skækil, og endirinn hefir jafnan orðið sá, að ekkert af öllum þessum sparnaðarmálum hefir náð fram að ganga, hversu sjálfsögð sem þau hafa verið. Sýslumannaembættasamsteypa sú, sem jeg bar fram á þinginu í fyrra, virtist t. d. vera alveg sjálfsögð, því að með því var sparað mikið fje, en hinsvegar var svo um búið, að nýju embættin urðu ekkert erfiðari eða jafnvel ljettari en þau, sem fyrir eru. Þó náði þetta ekki fram að ganga. Harðasti prófsteinninn á sparsemi þingsins var þó frv. það um sameiningu landsbókasafnsins og þjóðskjalasafnsins, sem jeg lagði fyrir þingið í fyrra. Nú hefir þetta mál enn verið borið fram á þessu þingi, en meirihl. nefndarinnar, sem hefir það til athugunar, hefir lagt á móti þessu og vill, að söfnin haldi áfram að vera tvö, en vill hinsvegar, að reynt sje að spara aðstoðarmann á öðru safninu. Þegar ekki er einu sinni hægt að koma svona sjálfsögðum sparnaði fram, og það þegar svo stendur á, að hinn ágæti forstöðumaður þjóðskjalasafnsins er látinn, svo að ekki þarf að taka embætti af nokkrum manni, þá getur ekki hjá því farið, að trúin fari að minka á árangur slíkra sparnaðartilrauna. Þó tel jeg vera rjett að samþykkja þessa till., og jeg mun greiða henni atkvæði mitt.

Jeg vonast svo eftir, að sú sparnaðarnefnd, sem skipuð verður, eða nefndir, ef þær verða fleiri en ein, taki tillögur mínar um embættasamsteypur til rækilegrar athugunar. Því að jeg tel slíka samsteypu sjálfsagða, og þó að jeg hafi ekki borið hana fram á þessu þingi, þá er það ekki af því, að mjer hafi snúist hugur, heldur sökum þess, að jeg hefi ekki búist við að það mál mundi fá byr í þinginu, en aðeins auka mas í þinginu, sem ekki leiðir til niðurstöðu.

Einasti möguleikinn til sparnaðar er að stækka verksvið embættismannanna. Og það er hægt.