01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (2955)

136. mál, skattur af heiðursmerkjum

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Nú er fátt manna í deildinni, og skal jeg því ekki tefja hana með langri ræðu, enda gerist þess ekki þörf, þó að hinsvegar sje rjett að fylgja tillögunni úr hlaði með nokkrum orðum af hálfu fjvn.

Þetta mál, um fálkaorðuna og krossana íslensku, er margrætt, bæði utan þings og innan. Margir hafa haft horn í síðu þessarar orðu, bæði þegar hún var stofnuð og eins síðan. Ýmsar tillögur hafa komið um breytingar á þessu. Það hefir verið lagt til, að orðan væri afnumin, eða að bannað væri að öðrum kosti að veita hana innlendum mönnum, því að margir telja, að ekkert gott standi af henni. í fjvn. voru margir, sem vildu hníga að þessu ráði, annaðhvort leggja orðuna niður eða veita hana aðeins útlendingum. En þar sem þær tilraunir hafa mistekist hingað til, varð það að ráði að fara ekki þessar leiðir, heldur hina, að reyna að fá upp þann ekki alllitla kostnað, sem ríkissjóður hefir haft af þessu.

Jeg hefi leitað í landsreikningnum að þessum kostnaði, og upphæðir þær, sem jeg fann, eru sem hjer segir:

Árið 1920: Teikning Fálkaorðunnar kr. 783,50.

Árið 1921: Kostnaður við orðuna kr. 16551,50.

Árið 1922: Kostnaður kr. 6745,00.

Ef svipaður kostnaður hefir verið síðastliðið ár sem 1922, hefir orðan kostað landið á þessum fáu árum alt að 30000 kr. Tilgangur nefndarinnar með þessari tillögu er sá, að þessum kostnaði verði náð upp. Það er margt, sem bendir á, að nokkur kostnaður muni verða framvegis, og ætlast nefndin til, að honum verði náð, og jafnframt þeim kostnaði, sem þegar er orðinn.

Tillagan er orðuð sem áskorun á stjórnina að undirbúa löggjöf um þetta efni. Það mætti ef til vill segja, að nefndin hefði átt að ganga frá frv. um þetta efni. Til þess er því að svara, að það er töluvert vandaverk og þarf undirbúning. Til þess að svo sje gengið frá þessu sem nefndin telur rjettast, þarf að vita, hve margir innlendir menn hafa fengið þessi heiðursmerki — en nefndin ætlast ekki til, að útlendingar greiði skatt — svo að unt sje að reikna út hæð skattsins. En hinsvegar liggur þessu máli ekki svo mjög á, að það megi ekki bíða næsta þings.

Það mætti gera ráð fyrir þeirri aðalmótbáru gegn þessu, að slíkur skattur sje óeðlilegur, því að með heiðursmerkinu sje verið að heiðra menn fyrir verðleika þeirra. Til þessa vil jeg svara því, sem alkunnugt er, að svipaður skattur á titlum og heiðursmerkjum er til í mörgum öðrum löndum. Geri jeg því ráð fyrir, að ekki muni þunglega lagst á móti tillögunni af þessari ástæðu. Jeg hefði gjarnan viljað fara lengra, en þar sem það mun ekki nást, vil jeg þó fara þessa leið. Jeg leyfi mjer að vænta þess, að hæstv. stjórn taki vel í þessa tillögu, sem flutt er af fjvn. allri.