01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (2965)

136. mál, skattur af heiðursmerkjum

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Nú fara að tíðkast hin breiðu spjótin. Það munu allir skilja, sem heyrðu á flutning minn á þessu máli, að jeg get alls ekki greitt atkvæði gegn þessum brtt. Jeg er þeim algerlega sammála, og þó einkum brtt. hv. þm. Borgf. (PO). Hins vegar vil jeg þó mælast til þess af hálfu fjvn., að tillaga hennar verði samþykt, þó að hv. deild felli þessar brtt. Þær fara lengra, en þó að hv. deildarmenn vilji ekki aðhyllast þær, vænti jeg þess, að þeir muni geta samþykt aðaltillöguna. Jeg skal ekki rökræða þessar brtt.; jeg geri ráð fyrir, að hv. deildarmenn verði fljótir að átta sig á þeim.