09.04.1924
Efri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í D-deild Alþingistíðinda. (3196)

127. mál, sala sjávarafurða

Jóhann Jósefsson:

Mjer finst hv. þm. hafa tekið það óþarflega óstint upp fyrir mjer, að jeg vildi gjarnan fá kost á að athuga tillöguna í nefnd, því þar var aðeins um ósk að ræða af minni hálfu. Þó hv. flm. hafi sýnt mjer þessa þáltill. áður en hann bar hana fram, og við höfum rætt um hana, þá höfum við alls ekki tekið hana til meðferðar eins og nefnd mundi hafa gert.

Hv. flm. (IP) fanst kenna gusts frá mjer gegn till. sinni. Það má vel vera rjett. Framsöguræða hans ber með sjer, að hann hugsar sjer allalvarlegar breytingar í þessu máli. Í fyrsta lagi vill hann fá skipaða útflutningsnefnd, sem hafi allan útflutning í hendi sjer. Hitt er, að hann óskar, að komið verði á ríkiseinkasölu. Mjer finst þessar breytingar vera það stórfeldar, að þær sjeu þess verðar, að nefnd fái að athuga þær. Hvað snertir að taka til athugunar, hvort bæta megi fyrirkomulag á sölu sjávarafurða, get jeg verið honum sammála, að rjett sje að hvetja stjórnina til þess að taka það mál til athugunar.

En það er alt annað en að stofna til ríkiseinkasölu að skipa útflutningsnefnd. Þegar alt kemur til alls, finst mjer ótti hans við að lofa rjettum aðila, sjávarútvegsnefnd, að athuga málið, vera á engum rökum bygður. Það gæti komið til mála, að sjávarútvegsnefnd Nd. athugaði þessi mál með okkur. Það hefir stundum átt sjer stað, að viðkomandi nefndir beggja þingdeilda, athuguðu stórmál saman. Þegar þau eru á döfinni. Svo var það t. d. um verðtollinn. (IP: það voru lög). Jeg vil ekki deila við hv. þm. um formsatriði: í þeim efnum er hjer í deildinni úrskurðarvald.

En hv. 2. þm. S.-M. (IP) þarf ekki að taka það sem vott þess, að jeg sje andvígur bættu sölufyrirkomulagi sjávarafurða, þótt jeg óski þess, að nefnd fái að athuga málið og að því verði frestað.