25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í D-deild Alþingistíðinda. (3388)

81. mál, starfsmannahald við landsverslunina og áfengisverslunina

Forsætisráðherra (JM):

Það hefir verið spurt um, hve margir starfsmenn væru við landsverslunina og áfengisverslunina, og hver laun hvers um sig væru. Jeg mun eiga að svara fyrirspurninni, að því leyti sem hún snertir áfengisverslunina, og skal nú gera það.

Það er þá fyrst, að forstöðumaðurinn var ráðinn í ársbyrjun 1922, og var hann þá ráðinn til 6 mánaða með 15 þús. kr. árslaunum. Hann var aðeins ráðinn til þessa tíma, sökum þess, að ekki þótti sjeð fyrir, hvort ekki yrði einhver breyting gerð á áfengis- og lyfjaversluninni, þegar þingið kæmi saman 1922. Síðan varð föst ráðning á þessum manni, og hygg jeg, að hann hafi þá verið ráðinn til þriggja ára, að meðtöldum þessum 6 mánuðum, sem hann var ráðinn til bráðabirgða. Og jeg hygg, að honum hafi þá um leið verið gert að skyldu að afsala sjer eða selja lyfjabúð sína á Seyðisfirði. Af því að ráðningin var til svona stutts tíma, en skilyrði gert, að maðurinn ljeti af hendi arðsamt fyrirtæki, þá var bætt við laun hans, svo að þau eru síðan 18 þús. kr. En jeg ætla, að ráðningartíminn sje úti um eða rjett eftir næstu áramót.

Eftir lögunum átti að skipa 2 endurskoðendur, en það hefir aldrei verið skipaður nema einn, og þóknun hans er 2400 kr.

Þá vinna á áfengisskrifstofunni 4 menn. Sá fyrsti hefir kr. 7371,96 í árslaun. Jeg játa, að jeg veit ekki almennilega, hvernig á því stendur, að talan er þessi. Þessi maður er aðalbókhaldari og hefir auk þess umsjón með hinni daglegu vinnu á skrifstofunni. Og þegar forstöðumaðurinn er fjarverandi, hefir hann á hendi forstöðu verslunarinnar.

Þá er gjaldkerinn. Hann hefir 6000 kr. í árslaun, eða 500 kr. á mánuði. Hann sjer auk þess um afgreiðslu á pöntunum frá lyfjabúðum, læknum, útsölunum og öðrum viðskiftavinum verslunarinnar, heldur bók yfir afgreiðslur til útsalanna og yfir endursent tómagóss frá þeim.

Þá er enn skrifstofumaður, sem hefir 4800 kr. í árslaun. Þessi maður hefir á höndum brjefaskriftir verslunarinnar, reiknar ásamt forstöðumanninum út verð á vörum hennar, heldur birgðabók yfir bæði innfluttar og útsendar vörur, og heldur bók yfir, hve mikið læknum og lyfsölum hefir verið afhent af spíritus, koníaki og vínum, og sjer um, að ekki sje látið af hendi við þá meira en skamtur sá, er hver má fá á ári, o. fl.

Fjórði skrifstofumaðurinn hefir 7200 kr. árslaun. Hann athugar hinar mánaðarlegu skýrslur frá útsölunum, afrit af sölubókunum, yfirlýsingar o. s. frv., til þess að fá vitneskju um: 1. Hvort nokkrum manni hafi verið selt meira vín en leyfilegt er, þ. e. 10 lítrar á mánuði. 2. Hvort innborgunin komi heim við söluna, sem innfærð er í sölubækurnar. — Auk þess skrifar hann reikninga og hálfsársuppgjör, og tekur þátt í vinnu þeirri, sem fyrir fellur á skrifstofunni.

Þá eru við afgreiðslu birgðanna í vörugeymsluhúsinu 5 menn fastráðnir. 3 þeirra hafa hver um sig 5400 kr. árslaun, en 2 þeirra 4800 kr. árslaun hvor.

Auk þessara manna starfa við verslunina nokkum hluta ársins 2 karlmenn með kr. 1,50 kaupi á klst. og 2 kvenmenn með kr. 0,80 kaupi á klst.

Sá fyrsti þessara manna, sem fastráðnir eru og hefir hærra kaupið, er forstöðumaður og hefir umsjón með birgðum verslunarinnar, afgreiðslunni og vinnunni. Hann tekur á móti öllum innfluttum vörum og færir þær inn í birgðabók sína með dagsetningu, nafni sendanda og vörutegundarinnar, brúttóþunga vörunnar eða flöskutölu. Hann tekur á móti pantanaseðlum frá skrifstofunni og sjer um afgreiðslu þeirra, innfærir vörur þær, sem sendar eru, ásamt dags., nafni vörutegundar, lítra- eða flöskutölu, nafni viðtakanda og heimilisfangi hans. Hann sjer um, að vörurnar sjeu afgreiddar til skips, og auk þess tekur hann á móti og lætur telja upp allan endursendan varning frá viðskiftavinunum og sendir skrifstofunni skrá yfir hann. Hann ber ábyrgð á spíritus- og koníaks-birgðunum, o. s. frv. Á hverjum mánuði telur hann, ásamt manni af skrifstofunni, upp spíritusbirgðir verslunarinnar. Auk þess heldur hann bók yfir flöskur, sem keyptar eru hjer á staðnum. Þetta er forstöðumaðurinn.

Þá er annar, sem hefir líka 5400 kr. í árslaun, og er það, sem venjulega er nefnt „pakkhúsmaður“. Hann sjer um og ber ábyrgð á hreinsun, síun og aftöppun vínanna. Hann hefir umsjón með flöskuskoluninni og sjer um, að vel og vandlega sje frá henni gengið. Þetta verk er mikið og vandasamt, og hefir valið á manninum tekist vel, svo að ekki hefir nema einu sinni verið um kvartað lítilsháttar. Auk þessa aðstoðar hann við að vega vín og spíritus, sem kemur á fötum. Þótti nauðsynlegt að hafa mann þar við, ekki einungis til að bera vitni um, að rjett væri vegið, heldur líka til að sjá um, að ekkert hyrfi af birgðunum. Auk þess heldur hann sjerstaka bók yfir vín þau, sem koma á tunnum, viðtökudag, tunnunúmerið, lítratölu tunnunnar, aftöppunardag og útkomuna í flöskum o. s. frv.

Þriðji maðurinn, sem hefir hærri árslaunin, tekur á móti hinum aftöppuðu vínum og stjórnar vinnunni við að setja hylki og miða á flöskurnar, setja þær í kassa og raða þeim niður í birgðageymslumar. Hann sjer um, að rjettur verðmiði sje settur á hverja flösku, og skýrir frá, þegar panta verður nýja sendingu.

Svo eru tveir menn, sem hafa lægri árslaunin. Þeir vinna, eins og tímavinnumennirnir, að allri vinnu, sem fyrir kemur við birgðirnar og afgreiðsluna, og hafa og sjerstök verk að inna af hendi.

Konurnar vinna aðallega að flöskuskolun, og við og við að því að líma miða á flöskurnar.

Þannig gerir forstöðumaður áfengisverslunarinnar grein fyrir kaupinu, og fyrir hvað borgað sje.

Svo hafa verið 4 menn við útsöluna hjer í bænum 2 þeirra eru þar ekki lengur, og höfðu þeir nokkuð há laun. Annar 10 þús. kr., aðalforstöðumaðurinn, hinn 6 þús. kr.

Þar að auki eru tveir afgreiðslumenn, sem enn vinna við verslunina, og hafa hvor 350 kr. á mánuði. — það hefir ekki verið bætt neinum manni við, þótt þessir tveir hafi farið, heldur heldur verslunin áfram með því, að einn maður hefir verið tekinn af skrifstofunni og settur þangað.

Jeg skal láta þess getið, að jeg hefi nokkuð grenslast eftir því, hvað mönnum við svipuð störf er borgað við verslanir hjer í bænum. Það er býsna misjafnt. En afgreiðslumönnum, sem eru um tvítugt, en taldir eru fullkomnir menn, og þeim, sem eldri eru, mun borgað frá 3–450 kr. á mánuði, þótt þeir standi ekki fyrir. Og sjeu verslanirnar stórar, hygg jeg, að meðaltalið sje um 400 kr. En þetta er nokkuð misjafnt. Hitt er einnig mjög mismunandi, hvað þeim mönnum er borgað, sem hafa aðalbókhald á hendi, en tæplega hygg jeg, að það sje minna en 5–600 kr. á mánuði. Held jeg, að svipað þessu sje borgað mjög svo víða, sumstaðar máske eitthvað hærra, annarsstaðar ef til vill lægra. Þeir, sem standa fyrir vörugeymslu, munu yfirleitt hafa um 400 kr., ef starfið er nokkuð umfangsmikið. Annars mun taxti verkstjóra vera 500 kr. á mánuði. Jeg hygg því, að kaup áfengisverslunarinnar muni miðast við það, sem gerist hjá verslunum hjer, eða ef til vill eitthvað hærra.

Þegar jeg fór að grenslast eftir kaupinu við áfengisverslunina, gat jeg þess, að launin mundu verða færð niður, eða að minsta kosti endurskoðuð launakjörin. Ef þau eru borin saman við laun annara starfsmanna ríkisins, þá er það þegar auðsjeð, að þeir, sem vinna við áfengisverslunina, hafa hærra kaup. En þess ber að gæta, að staða þeirra er óviss og henni má segja upp, hvenær sem er. Fastir starfsmenn ríkisins hafa æfistarf og ýms hlunnindi, sem hinir hafa ekki.

Annars held jeg, að jeg þurfi ekki að fara um þetta fleiri orðum, og sje jeg ekki ástæðu til að gefa frekari skýrslu.