25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í D-deild Alþingistíðinda. (3397)

81. mál, starfsmannahald við landsverslunina og áfengisverslunina

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vil leyfa mjer að skjóta fram örlítilli athugasemd út af orðum hv. 4. þm. Reykv. (MJ), sem er annar í röðinni af fyrirspyrjendum. Mjer skildist það á 1. fyrirspyrjanda, hv. þm. Ak. (BL), að tilgangur hans væri sá, að fá upplýsingar um starfsmannahald og reyna á þeim grundvelli að skapa aðhald, svo að mönnum væri fækkað og laun lækkuð, ef unt væri. þennan tilgang get jeg virt. En svo kemur hv. 2. fyrirspyrjandi (MJ) og talar um launakjörin. Kemst hann að þeirri niðurstöðu, að þau sjeu miklu betri en annara starfsmanna ríkisins, en launin þó enganveginn of há. Fanst mjer hann nota þetta til þess að sanna, að allir aðrir starfsmenn landsins væru of illa launaðir. Mjer þykir illa farið, ef aðalblærinn á þessum umræðum á að vera sá, að þetta verið notað til þess að skrúfa upp laun allra starfsmanna ríkisins, þar sem jeg efast ekki um, að tilgangur hv. aðalfyrirspyrjanda (BL) hafi verið sá, að þessi fyrirspurn leiddi til sparnaðar. Jeg get ekki setið svo hjá, að sá verði aðalblærinn yfir þessum umræðum, sem lýsti sjer í ræðu hv. 2. fyrirspyrjanda (MJ). Í þessu sambandi skal jeg geta þess, að ýmsir embættismenn, sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) nefndi, hafa aðrar matarholur heldur en þær, sem koma fram í launum aðalembættis þeirra. Oss fjárveitinganefndarmönnum er ekki ókunnugt um, að sumir hafa 2–3 önnur störf, sem eru launuð af ríkisfje, og er því ekki rjett að taka til samanburðar laun þeirra fyrir aðeins eitt starfið.

Jeg verð að segja það um skýrslur hæstv. ráðh., að mjög er erfitt að átta sig á þeim og fá heildaryfirlit við að heyra þær lesnar upp aðeins einu sinni. Þó dylst mjer ekki, að við aðra stofnunina, áfengisverslunina, hefir verið farið óhæfilega með fje landsins. Bæði starfsmannafjöldinn, launakjör og alt fyrirkomulag er algerlega óverjandi. Og búðarfarganið með öllu starfsmannahaldinu er mestu vandræði. Vil jeg í þessu sambandi árjetta það, sem jeg sagði í umræðum um annað mál, að þetta hálaunaða embætti til þess að halda skrá um, hvort enginn drekki meira en 10 flöskur á mánuði, og alt seðlafarganið, er ekki annað en „humbug“. Jeg vil beina því til hæstv. forsrh. (JM), að hann felli það starf niður hið allra fyrsta. það má vera, að einstaka menn, sem hafa beitt sjer fyrir bindindisstarfsemi hjer á landi, telji gagn af þessu, en allur fjöldi þeirra manna er því algerlega mótfallinn.

Annars vil jeg taka það fram, að jeg geymi mjer rjett til þess að draga ályktanir af ýmsu í þessum skýrslum hæstv. ráðherra, þangað til jeg hefi þær skrifaðar fyrir framan mig.