19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (3465)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jón Baldvinsson:

Eins og kemur ljóslega fram í greinargerðinni fyrir þessu frv., þá er ætlast til þess, að ábyrgð ríkissjóðs sje hjer fengin einstökum mönnum og fjelögum. Þessu get jeg ekki verið sammála. Hjer um árið var fengin ábyrgð ríkisins fyrir nokkra togara, sem hætt var við, að yrðu annars seldir út úr landinu. Býst jeg við, að ríkissjóður muni eiga í hættu lengur vegna þeirrar ábyrgðar. En mjer hefði fundist eðlilegra, ef hjer hefði verið um útgerð að ræða, sem bæjarfjelag stæði fyrir, að þá hefði verið leitað ríkisábyrgðar, og hefði mjer verið ljúft að samþykkja það. En jeg treysti mjer ekki til að samþykkja þetta frv., eins og það liggur fyrir. Jeg skal ekki segja, hvort jeg muni koma með brtt. í þessa átt. Jeg sje nú hverju fram vindur. Það hefði verið langtum tryggara, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefði haft þetta með höndum. Þá hefði það verið örugt, að togararnir, sem ráðgert er að kaupa, yrðu þar til frambúðar. En um togara einstakra manna er þetta ekki eins örugt, eins og reynslan undanfarið hefir bent til. Sem sagt, jeg álít best, að bæjarstjórnin hafi hjer hönd í bagga.

Það er þetta, sem mig greinir á um við sjútvn.