19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (3477)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Atvinnumálaráðherra (KlJ):

Háttv. 1. þm. Reykv. (JÞ) hjelt því fram sem sinni skoðun og margra annara, að fiskiveiðarnar ættu að vera sem mest í höndum innlendra manna, og er jeg því fyllilega samþykkur. En mjer finst það dálítið undarlegt frá sjónarmiði þessara manna, sem hafa svo mikla ótrú á allri einokun, að þeir skuli einmitt halda fram einkarjetti fremur fámennrar stjettar til þessara veiða með ákveðinni tölu togaraskipa, eigi aðeins gagnvart útlendingum heldur og gagnvart öðrum innlendum mönnum, sem kynnu að vilja stunda þessar veiðar. Frá mínu sjónarmiði er ekkert við þetta að athuga, en jeg hefi haldið þetta ósamrýmanlegt skoðunum þessara manna á öðrum málum.

Háttv. þm. Borgf. (PO) æskti dómsúrskurðar um þann skilning minn á fiskiveiðalöggjöfinni, sem jeg hefi oft látið í ljós, og taldi hann það næst standa stjórninni að fá dómsúrskurð í þessu máli. Við það hefi jeg ekki að athuga, og skal játa, að það stendur stjórninni næst að fá þessu framgengt; en þar eð stjórnarskifti hafa nú staðið fyrir dyrum í 2–3 vikur, og ætla mætti, að nú færi að draga að því, að ný stjórn komist á laggirnar, geri jeg ráð fyrir, að það gæti þá orðið eitt af fyrstu verkum hinnar nýju stjórnar, að fá dómstólana til þess að skera úr þessu deiluatriði.

Um spurningu háttv. þm. Borgf., viðvíkjandi síldarverksmiðju á Hesteyri, er það að segja, að jeg hefi ekki heyrt hennar getið neinstaðar eða á neinn hátt fyr en nú, hjer á þessari stundu, er háttv. þm. Borgf. spurði um þetta. Veit jeg því alls ekki til, að þetta sje í undirbúningi. Vænti jeg nú að hafa svarað svo skýrt, að jeg þurfi ekki að endurtaka þetta aftur.