19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (3482)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jón Auðunn Jónsson:

Það er með öllu tilhæfulaust, sem sagt hefir verið í þá átt, að jeg væri hjer að berjast fyrir einokunarhagsmunum einstakra manna. Það, sem jeg heimta, er það, að löggjafarþingið afsali ekki sjerrjettindum Íslendinga til atvinnurekstrar í hendur erlendra fiskiveiðaþjóða. Jeg vil ekki, að íslenskir útgerðarmenn verði ofurliði bornir af útlendingum, svo að þeir verði annaðhvort að hætta atvinnurekstri sínum eða verða leiguþegnar hinna erlendu hlaupamanna. Alt einokunarhjal hæstv. atvrh. er því hreinasta hjegilja, og mun stafa frá því, að hæstv. atvrh. hefir undanfarið dreymt illa fyrir ýmsum einokunarhugmyndum sjálfs sín.