27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (3495)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hefi látið þetta mál hlutlaust til þessa og hefi aldrei lagt orð í belg við 1. umr. þess, en mjer þykir þó hlýða að gera grein fyrir afstöðu minni til málsins við þessa umr. Hæstv. fjrh. (JÞ) gerði grein fyrir afstöðu nefndarinnar til málsins, og þarf jeg því eigi að víkja frekar að því.

Þegar hjer kom til umr. frv. hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) um að leyfa erlendum togurum að hafa bækistöð sína í Hafnarfirði, greiddi jeg atkvæði móti þeirri undanþágu frá fiskiveiðalöggjöfinni. Hann færði sem ástæðu fyrir frv. sínu hinar afarerfiðu kringumstæður í Hafnarfirði, sökum atvinnuskorts þar, sem leitt hefði af því, að einn stærsti atvinnurekandinn þar hefði hætt störfum á síðasta ári. Jeg efa nú alls ekki, að þessar ástæður hans eru rjettar, en samt sem áður gat jeg ekki greitt atkvæði með þessari undanþágu frá fiskiveiðalöggjöfinni, jeg áleit það svo hættulegt fordæmi, að ekki gæti komið til mála að fallast á það. Nú er þetta mál borið aftur fram, en í alt annari mynd. Það er rætt um það, að innlendir menn afli sjer skipa, sem gerð sjeu út frá Hafnarfirði, til þess að bætt verði úr atvinnuskortinum þar. Auðvitað kemur sú atvinnubót, sem þannig er ráðgerð nú, ekki þegar í stað að gagni fyrir Hafnfirðinga, en það verður stundum að undirbúa mál allmiklu áður en þau komast í framkvæmd, og í þessu tilfelli er sá undirbúningur nauðsynlegur til þess að reyna að bjarga Hafnarfjarðarkaupstað frá yfirvofandi hættu vegna atvinnuskorts. Jeg get tekið undir það með hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að mjer þykir of margt fólk vera saman komið í kaupstöðunum, miklu fleira en svo, að atvinnuvegir landsins hafi hag af því. Til Hafnarfjarðar hefir á síðari árum flust margt fjölskyldufólk, og hefir það búið um sig þar og fengið atvinnu um hríð, en nú er svo komið, að atvinnan hrekkur ekki fyrir þörfum fjölskyldumanna í bænum, og þó að bæjarstjórnin tæki nú það ráð að vísa af höndum sjer öllu því fólki, sem ekki hefir fyrir heimilum að sjá, verður þó ekki næg atvinna eftir fyrir þá, sem eftir eru og mest þurfa hennar með, heimilisfeðurna. En áður en til þess kæmi, að menn, sem búnir eru að setja sig þar niður, hafa máske reist sjer hús eða lagt fje í húsnæði á annan hátt, þurfa að selja fasteignir sínar og hverfa á brautu þaðan, get jeg ekki neitað því, að jeg mun skoða hug minn tvisvar áður en jeg greiði atkvæði á móti því, að gerðar verði tilraunir til þess að bjarga atvinnu þessara manna, svo að þeir þurfi ekki að hröklast þaðan á braut, en fasteignir þeirra verða verðlitlar eða jafnvel verðlausar. Þess vegna vil jeg ljá því fylgi mitt, að landið hlaupi undir bagga með þeim mönnum, sem vilja starfa að auknum framkvæmdum í Hafnarfirði. En nú er það, að þessi aukna atvinna, sem fást mundi á þennan hátt, nægir aðeins til þess að fullnægja atvinnuþörf fjölskyldumanna þar, en er alls ekki nóg fyrir alla íbúa bæjarins. Þess vegna finst mjer ekki vera hægt að ganga skemra í þessu.

Það eru og fleiri ástæður fyrir því, að jeg er þessu meðmæltur. Eins og menn vita, hefir íbúatala Hafnarfjarðar vaxið stórkostlega hin síðari árin, nærri tvöfaldast Hver er orsökin? Ekki hefir atvinnurekstur innlendra manna þar aukist nema að mjög litlu leyti og ekki dregið fólkið þangað. Það er einmitt af því, að það eru ekki innlendir menn, sem valdið hafa þessu atvinnuleysi í Hafnarfirði. Þangað kom erlendur maður og hefir þar umfangsmikla starfrækslu um hríð. Hann þarfnaðist margra verkamanna og fólkið fær fregnir af þessu og streymir þangað unnvörpum og sest þar að. En svo fer, að þessi erlendi maður gefst upp og hverfur brott úr landinu, en eftir standa auðir fiskverkunarreitir og tóm hús, þar sem áður hefir unnið daglega fjöldi manna. Nú getur fólkið ekki lifað á þessum mannvirkjum einum saman; það verður að hafa störf að vinna. Einn þátturinn í því, að komið verði í veg fyrir að þetta hendi oftar, er sú liðveisla, sem meirihl. fjhn. leggur til að veitt verði Hafnfirðingum. En sá þáttur, sem nefndin leggur til að tekinn verði í kjörum þeirra, ætti að verða hinu háa Alþingi næg áminning þess að gæta betur atvinnulöggjafar sinnar en áður hefir átt sjer stað. Ef mönnum lægi í ljettu rúmi, hvort starfrækslan væri innlend eða erlend, væri engin ástæða til að verða við bón Hafnfirðinga. En nú er þessi sami leikur að byrja þarna aftur. Erlendir menn eru í þann veginn að koma þangað aftur og byrja þar á ný, en hvenær þeir hætta, getur enginn sagt neitt um.

Þetta ætti að verða til þess að vekja menn til aðgæslu og ætti að ýta undir það, að fyrirbygt yrði, að erlendir menn settust hjer að til þessa atvinnurekstrar. Áhrifin af komu þeirra hingað á atvinnuvegina í landinu eru deginum ljósari í Hafnarfirði, og því víðar á landinu sem þetta á sjer stað, því verra er það. Nú er því enn meiri nauðsyn til þess að Alþingi taki í taumana, og að útlendingum verði algerlega bægt frá atvinnurekstri í landinu. Þá er og heldur ekki drengilegt að skiljast svo við þetta mál á Alþingi, að þessir kaupstaðarbúar standi einir uppi atvinnulausir og bjargþrota. Með þetta fyrir augum, meðal margs annars er það, að jeg greiði atkvæði með því, að ríkið gangi í þessa ábyrgð. Jeg vil og skora á stjórnina, að hún geri sitt ítrasta til að fá það útkljáð — hjá dómstólunum, ef það er ekki hægt á annan hátt — hvort þeim útlendingum, sem hjer hafa sest að, er það heimilt samkvæmt lögum. Verði sá úrskurður kveðinn upp um þetta, að þeim sje heimilt að setjast hjer að, vænti jeg, að hið háa Alþingi taki rögg á sig og skerpi svo þau lög, er nú gilda um þetta, að erlendum mönnum haldist ekki slíkt uppi eftirleiðis, og því auðveldara verður okkur að framfylgja þessum kröfum, sem betur er sjeð fyrir atvinnu manna í kaupstöðunum. En jeg mun ávalt leggjast á móti því, að fólkið þyrpist til kauptúnanna. Jeg hygg, að okkur muni ávalt hollast að halda uppi atvinnu í sveitum landsins, í ekki minna mæli en áður. Þó að sjávarútvegur sje arðvænlegur stundum, getur hann ávalt brugðist, og þá erum vjer því ver farnir sem fleiri stunda hann, og þá fyrst getum við verið öruggir, er landbúnaðurinn er orðinn það öflugur, að þegar sjávarútvegurinn bregst, geti fólkið flúið frá honum til sveitanna.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að fara að gera athugasemd við ræðu háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), nema að því leyti sem við getum ekki verið sammála. Jeg er sammála honum í því, að rjett hefði verið að samþykkja brtt. hans í gær um tóvinnuvjelar á Austurlandi, ef málið hefði verið nægilega undirbúið. En mjer vitanlega liggja engin gögn fyrir þinginu um þetta, og jeg veit ekki til, að það hafi nokkurntíma komið fram, að það mál væri svo undirbúið, að hægt væri að kalla það rjettmætt að veita fje í þessu skyni. Jeg greiddi því þó atkv., í því trausti, að menn gættu þar allrar forsjár, þótt þetta mál væri ekki nægilega undirbúið.

Það, sem vakað hefir fyrir flm. þessa frv., er að auka starfsemina þarna í Hafnarfirði og bæta úr atvinnuleysi, og fyrir því hefi jeg greitt frv. atkv. Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) drap á það, að löggjafarvaldið ætti ekki að stuðla að því, að fólkinu fjölgaði í kaupstöðunum. Jeg er samdóma hv. þm. um þetta; en það er ekki það, sem er að óttast hjer. Það, sem mest hefir stuðlað til þess að flytja fólkið úr sveitunum til kauptúnanna, er útgerð sú, sem sumir útlendingar hafa rekið hjer við land, og þá fyrst og fremst síldveiðar. Væri meiri þörf á að leggja áherslu á að útiloka þá með löggjöfinni heldur en amast við því, að þessum innlendu togurum verði bætt við. Verð jeg að leggja ríka áherslu á þetta, að stjórnin fái útkljáð þetta mál um rjettindi útlendinga hjer á landi.

Að því er snertir þessa tvo togara, sem í ráði er að koma upp í Hafnarfirði, þá lít jeg svo á, að sú atvinna, sem þeir veita, muni aðeins koma að haldi þeim mönnum, sem nú eru atvinnulausir í Hafnarfirði, en að hitt sje ekki að óttast, að þeir verði til þess að draga sveitafólk til kaupstaðarins; öðru máli væri að gegna, ef um væri að ræða 10–12 togara.

Hv. 1. þm. S-M. kvað þessa ábyrgð hafa í för með sjer nokkra áhættu fyrir ríkissjóðinn. Jeg geri aftur á móti fremur lítið úr þeirri áhættu. Því bæði verður að treysta því, að ríkisstjórnin krefjist viðunandi trygginga, og auk þess er nú hægt að fá ódýr skip, og hefir það mikið að segja í þessu efni. Verð jeg auk þess að líta svo á, að lítið mundi verða um framkvæmdir hjer á landi, ef enginn þyrði að eiga neitt á hættu. Skal jeg t. d. taka það fram í þessu sambandi, að þegar jeg greiddi atkv. með fjárveitingunni til klæðaverksmiðjunnar, þá var það ekki af því, að jeg væri þess fullviss, að ómögulega gæti orðið tap á þeim rekstri. Þvert á móti gæti slíkt vel átt sjer stað í byrjun, þar sem um svo nýjan rekstur er að ræða. En jeg gekk út frá því, að ef vel væri til þess stofnað, þá mundi fyrirtækið með tímanum verða til nytsemi, og svo býst jeg við að muni líka verða hjer.