27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (3497)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg er sammála hv. 2. þm. Árn. (JörB), og styð þetta mál af sömu ástæðum og hann. Við verðum á einhvern hátt að reyna að sjá fyrir atvinnuþörfinni. Fólki í landinu fjölgar með ári hverju, og jafnframt verður að auka framleiðslutækin. Jeg skal þó játa það, að jeg myndi helst kjósa, að meginhlutinn af þeim atvinnuauka yrði hjá landbúnaðinum. Því þótt jeg sje frá sjávarkjördæmi, að meira leyti en landbúnaðar, þá hefi jeg jafnan litið svo á, að landbúnaðurinn hafi ekki tekið þeim þrifum á síðustu árum, sem æskilegt væri, og að leggja verði ríka áherslu á að auka hann og bæta.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) vildi álíta að þeir, sem greitt hefðu atkv. gegn till. um lánsheimild til klæðaverksmiðju á Austurlandi, en með þessu frv., hefðu ekki verið samkvæmir sjálfum sjer í skoðunum. Jeg leyfi mjer að neita þessu. Jeg get vel verið með þessu frv., þótt jeg sje mótfallinn því, að menn leggi út í það að stofna tóvinnufyrirtæki með ónógum undirbúningi og ljelegu skipulagi. Reynsla okkar og reynsla annara þjóða í þessu efni bendir til þess, að hagfeldast sje að hafa fáar en öflugar tóvinnuverksmiðjur. Áður fyr höfðu Norðmenn ótalmargar slíkar, smáar verksmiðjur; þær voru allar reknar með tapi. Var þeim síðan steypt saman í nokkrar stórar verksmiðjur, og fór þá þegar að ganga betur. Sömu reynslu höfum við í þessu efni. Af hverju sendum við ullina okkar til Noregs til vefnaðar? Af því að við fáum hana bæði betur og talsvert ódýrara unna, og það þrátt fyrir það, þótt við verðum að borga margfaldan flutningskostnað og vinnulaunin í erlendri mynt. Hefi jeg sjálfur sannfærst um það, að dúkarnir frá t. d. „Ullevaal“ eru talsvert betri en dúkarnir frá okkar verksmiðjum og stórum mun ódýrari. Það voru aðeins þessar ástæður, sem fyrir mjer vöktu, þegar jeg greiddi atkv. gegn till. hv. þm. Jeg tel það hreinasta óráð að hafa hjer 3 dúkaverksmiðjur, því þær hlytu að verða ófullkomnar og svo óhæfilega dýrar í rekstri, að til stórskaða yrði dúkagerð hjer á landi.