29.03.1924
Neðri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (3508)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Frsm. (Ágúst Flygenring):

Jeg gerði grein fyrir máli þessu við 2. umr., og komu þá engin mótmæli fram, heldur gekk það til 8. umr., án þess neitt væri við það athugað, annað en það, að hv. þm. Str. (TrÞ) spurði, hvort jeg vildi taka undir frv. hans um að stofna búnaðarlánadeildina við Landsbankann. Jeg hefi kynt mjer það mál rækilega síðan, og er því fyllilega samdóma, með örlitlum breytingum. Því það gengur í þá átt, að efla atvinnuveg, sem skylt er að efla, ef hægt er. En jeg býst hinsvegar við, að svo kunni að fara, að það komi ekki að miklu gagni, af því fjeð fáist ekki. Annars er hjer um ólík mál að ræða. Landbúnaðurinn krefst ½ milj. kr. peningaláns á hverju ári, en í þessu frv., sem hjer um ræðir, er ekki krafist neins láns, heldur aðeins heimildar fyrir ríkisstjórnina til að ganga í ábyrgð, gegn fullu veði. Annað þarf jeg ekki að taka fram. Jeg ætla að vona, að hv. deild sjái sjer fært að samþ. nú frv., eins og við 2. umr.