15.03.1924
Efri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

12. mál, mælitæki og vogaráhöld

Frsm. (Eggert Pálsson):

Nál. um þetta mál á þskj. 109 er ekki ýkjalangt, enda er málið ekki flókið.

Jeg er ekki vel kunnugur því, hvaða lög hafa gilt um þetta efni fyr á öldum hjer á landi. En jeg hygg, að á 19. öldinni muni hafa verið farið eftir tilskipun frá 1784.

Reglan mun þá hafa verið sú, að mælitæki og vogaráhöld væru löggilt í Danmörku, og þótti það, sem von var, mjög óheppilegt og óviðeigandi, ekki hvað síst eftir að þjóðin fór verulega að vakna til sjálfstæðismeðvitundar. Því var það, að á þinginu 1911 kom fram tillaga til þingsályktunar um að skora á stjórnina að athuga þetta mál, en af því varð enginn árangur í það sinn. Þess vegna var aftur á þinginu 1915 samþykt þingsályktunartill. sama efnis, og árangurinn af því varð sá, að árið 1917 voru sett lög um þetta efni og um leið stofnuð löggildingarstofan hjer í Reykjavík.

Fram að þeim tíma hefir sennilega gengið mjög á trjefótum víða með eftirlitið á mælitækjunum og vogaráhöldunum hjer hjá oss. Áhöldin hafa sjálfsagt gengið úr sjer meira eða minna, en ekki verið löguð jafnóðum, eins og hefði þurft að gera. Þessi stofnun hefir því óefað unnið mjög þarft verk hjer hjá oss þennan tíma, sem hún hefir staðið. Hún hefir unnið að endurbótum á þessu sviði, sem full alstaðar á landinu sjeu notuð ný eða endurbætt og fullkomin áhöld, í stað ófullkominna og ramskakkra vigta, sem áður voru víða notaðar. T. d. má benda á það, að á 400 kg. desimalvog, sem athuguð var í Vestmannaeyjum, var skakkinn 4 kg. á hverjum 100 kg. og 600 kg. desimalvog 3 kg. á hverjum 100 kg. Og á lökustu vigtinni var skakkinn svo mikill, að af 300 skp. af fiski, sem eigandi hennar þá átti, hefði hann tapað 26 skp., ef fiskurinn hefði verið á hana veginn.

En þrátt fyrir það gagn, sem löggildingarstofan frá 1917 hefir óneitanlega unnið, hafa þó komið fram harðar og ákafar kröfur um að leggja hana niður og koma á öðru skipulagi í þessu efni. Hafa menn á aðra hliðina haldið því fram, að forstöðuembættið, sem lögin gera ráð fyrir, 3200 kr. byrjunarlaun, hækkandi um 200 kr. þriðja hvert ár upp í 4400, væri óþarft og landssjóði of kostnaðarsamt, og á hina hliðina að mælitækin og viðgerð á þeim væri hlutaðeigendum svo óhæfilega dýrt með þessu fyrirkomulagi, sem nú er. Og hvað sem segja má um fyrri ástæðuna, þá verður eigi annað sagt en að síðari ástæðan hafi við mikil rök að styðjast. Það hefir fyrst og fremst reynst mjög svo dýrt fyrir einstaklingana að fá þessi áhöld hjer hjá löggildingarstofunni, en sjerstaklega hefir það þó reynst kostnaðarsamt að hafa þurft að laga og löggilda upp aftur gömul áhöld. Þó ekki hafi verið nema smágalli á áhöldum, sem hefir þurft að laga, þá hefir þurft að senda þau til Reykjavíkur, og hafa þau þá máske að því búnu verið orðin eins dýr eða dýrari en ný áhöld. Því var það að komið var fram með frv. um þetta efni á síðasta þingi. Því frumvarpi var vísað til stjórnarinnar til nánari athugunar. Upp úr því frv. hefir stjórnin svo samið þetta frv., sem nú liggur fyrir. Helsta breytingin, sem gerð hefir verið á frv. frá í fyrra, er sú, að eftir því skyldu lögreglustjórar í öllum kaupstöðum landsins hafa löggildinguna með höndum, en í þessu frv. eru það lögreglustjórarnir í tilteknum sjerstökum kaupstöðum, og eru það allir kaupstaðir landsins nema Hafnarfjörður og Siglufjörður.

Þetta fyrirkomulag eru sumir óánægðir með. Vilja þeir láta alla lögreglustjóra landsins annast um löggildingu. En væri það gert, yrði að láta þeim öllum í tje áhöld, sem til þess þyrfti, og nauðsynlega aðstoð, og er hætt við, að það yrði nokkuð dýrt fyrir landið. En þetta fyrirkomulag, sem hjer er í frumvarpinu lagt til að leiða í lög, ætti ekki að geta orðið mönnum mjög bagalegt, því síðasta málsgrein 5. gr. bætir í þessum efnum nokkuð úr skák, þar sem svo er fyrir mælt, að atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið annist um, að lögreglustjórar hafi jafnan rjett tæki til að reyna mælitækin og vogaráhöldin, enda þótt þeir hafi ekki allir löggildingarrjettinn. Eftirlitið sjálft er þó að nokkru leyti trygt með þessu.

Jeg hefi svo ekki fleira um þetta mál að segja. Eins og nál. sýnir, leggur nefndin til, að frv. fái að ganga óbreytt í gegnum hv. deild, því nefndin telur yfirleitt æskilegra að fá þessa breytingu, sem í frv. felst, gerða, heldur en láta sitja við það fyrirkomulag, sem nú er.