15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

3. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller:

Jeg hefi skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, og vil jeg með nokkrum orðum geta um ástæðuna til þess. Eins og jeg gat um við 1. umræðu, þá er jeg mótfallinn þessu gjaldi. Jeg hefi altaf verið það, vegna þess, að jeg tel það óheppilegt, ranglátt og óskynsamlegt. Er þetta gjald hjá okkur og eins dæmi í heiminum, og veit jeg ekki til, að nein önnur þjóð hafi ráðist í slíkt. En það er nú svo þröngur fjárhagurinn hjá okkur, að jeg býst við, að það myndi mælast illa fyrir að leggja eindregið á móti gjaldinu. Hingað til hefir þeirri reglu verið fylgt, að þetta gjald hefir verið afgreitt seinast frá fjhn. Nú hefir verið brugðið frá þeirri venju, og er þetta nú fyrsta skattafrv., sem kemur frá nefndinni. Jeg vildi hafa látið það koma seinast fram eins og áður, og hefði þá mátt vera, að jeg hefði greitt því atkvæði mitt, ef jeg hefði þá sjeð fyrir, að ekki væri hægt að ná tekjum til ríkissjóðsins, sem því svaraði, með neinu betra móti. En að svo stöddu máli á jeg mjög óhægt með að greiða þessu atkvæði mitt. Í nál. er það talið nauðsynlegt að afla ríkissjóðnum aukinna tekna svo nemi 2 miljónum. En það er mikið efamál, hvort rjett er að fara svo langt. Það eru að vísu líkur til, að tekjuhallinn nemi þessu, en þess er að gæta, að þar í felst einnig miljón króna afborgun af skuldum. Svo raunverulega er tekjuhallinn ekki svo mikill, sem látið er í veðri vaka. Nú er það álitamál, hve nærri á að ganga landsmönnum á svo erfiðum tímum til þess að borga af gömlum skuldum. Verð jeg fyrir mitt leyti að líta svo á, að mjög varlega eigi að fara í þeim efnum.

Auk þessa frv. hefir nefndin í smíðum eitt frv. enn, sem, ef það gengi fram, hefði mikinn tekjuauka í för með sjer. Hefði jeg því kosið að sjá fyrst, hvernig því frv. reiddi af, áður en þetta frv. yrði afgreitt. — Mun jeg því að svo stöddu máli greiða atkv. móti þessu frv.