01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

3. mál, útflutningsgjald

Fjármálaráðherra (JJ):

Jeg skal geta þess, að jeg tel litlu skifta, hvort verður ofan á hjer í deildinni, till. fjhn. um framlengingu til 1927 eða sú till., sem hv. Ed. hefir samþykt, að lögin skuli gilda um óákveðinn tíma. Jeg álít þó þýðingarlaust að vera nokkuð að tímabinda þetta gjald. Jeg geri ráð fyrir, að það sje orðið að föstum tekjustofni landssjóðs, sem ekki verði afnuminn, en aðeins breytingum undirorpinn. Það er því eðlilegt, að þessi lög gildi þangað til þeim er breytt með öðrum lögum eða ný sett.