19.02.1924
Neðri deild: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

6. mál, sameining yfirskjalavarðarembættis og landsbókavarðarembættis

Forsætisráðherra (SE):

Eins og hv. deild mun kunnugt, þá lá frv. þetta fyrir síðasta þingi, en var þá felt hjer í deildinni. Stjórnin gat nú samt sem áður ekki felt sig við ástæðurnar fyrir því, að frv. var felt. Höfuðástæðan, sem fram var færð, mun hafa verið sú, að störf landsskjalavarðar og landsbókavarðar væru svo ósamkynja. En eins og jeg tók fram í fyrra, þá er þetta hin mesta fjarstæða. Jeg get t. d. bent á það í þessu sambandi, að einmitt í Landsbókasafninu eru geymd sum okkar dýrmætustu handrit. (MJ: Eru nokkur skjöl geymd þar?). Já, eða eru handrit máske ekki skjöl! — Jeg hefi því fulla ástæðu til að halda, að hið háa Alþingi muni taka frv. þessu vel.

Í fyrra lagði stjórnin einnig fyrir þingið ýms fleiri samskonar frumvörp., sem fóru fram á það að steypa saman embættum, svo sem t. d. nokkrum sýslumannaembættum. Að jeg hefi ekki lagt þau fram aftur fyrir þetta þing, kemur ekki til af því, að jeg sje ekki sömu skoðunar sem áður um nytsemi þeirra, heldur vildi jeg grenslast eftir því fyrst, hvern byr þetta hefði hjá hv. þm. En það væri synd á þessum tímum að teygja þingtímann með því að bera fram frv., sem fyrirsjáanlegt væri, að feld yrðu. En sjái jeg hinsvegar fram á það, að hið háa Alþingi sje þeim till. hlynt, mun jeg ekki láta á mjer standa.