19.02.1924
Neðri deild: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

6. mál, sameining yfirskjalavarðarembættis og landsbókavarðarembættis

Forsætisráðherra (SE):

Út af ræðu hv. þm. Dala. (BJ) skal jeg taka það fram, að öll þau rök, er hann bar fram á móti frv., eru hin sömu og í fyrra, og svaraði jeg þeim þá rækilega. Rauði þráðurinn í frv. stjórnarinnar í fyrra um embættasamsteypuna var sá, að spara á launum embættismanna með því að láta þá hafa sæmilega mikið að gera, án þess þó að íþyngja þeim um of. Sama má segja um þetta frv. Það er ekki rjett, að störfin við söfnin hjer sjeu svo ósamkynja, sem hv. þm. Dala. heldur fram. Hefi jeg nýlega bent á þetta og fært rök til.

Hvað viðvíkur orðum hv. 1. þm. Reykv. (JÞ), sem virtust vera nokkuð utan við efnið, þá er það að segja, að eigi ræða hans að skiljast sem boðun vantraustsyfirlýsingar á stjórnina, — og öðruvísi verða orð hans varla tekin — þá væri honum sæmra og meiri heilindi í því að láta hana koma strax. Á slíku getur hver stjórn átt von. Annars veit jeg ekki, hvaðan honum kemur myndugleiki til að tala á þann hátt, sem hann gerði.