07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

6. mál, sameining yfirskjalavarðarembættis og landsbókavarðarembættis

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Þetta frv. er gamall og nýr kunningi og hefir enda nýlega verið deilt um það hjer í hv. deild, svo jeg skal ekki verða langorður um það, nema tilefni gefist til þess.

Meiri hl. nefndarinnar hefir gert grein fyrir áliti sínu í nál. á þskj. 211. Þar er m. a. tekin fram aðalástæðan, sem í raun og veru er mikils virði, að þessi tvö söfn fái að haldast aðgreind eftirleiðis eins og hingað til, svo ekki aukist sá ruglingur, sem því fylgir, að þau verði gerð að einu og sama safni og aðeins klofin í tvent að nafninu. Því að menn ættu að láta sjer skiljast, að þó að bæði þessi söfn sjeu undir sama þaki og þó að oft sjeu það sömu mennirnir, sem nota þau bæði, þá er hjer samt um tvær stofnanir að ræða, sem þó að þær sjeu ekki að öllu óskyldar, eru þó algerlega og greinilega aðskildar. Það er tiltölulega skýr merkilína milli þess, sem skjalasöfnin hafa að geyma og bókasöfnin hinsvegar, og á sama hátt er forstöðu þeirra ólíkt varið. Raunar má svo segja, að hjá okkur nálgist forstaða Landsbókasafnsins meir forstöðu Landsskjalasafnsins en annarsstaðar gerist, að því leyti sem hjer er um svo tiltölulega litla bókasöfnun að ræða, að hún verður að mestu bundin við íslensk fræði, en annarsstaðar ætlast til, að safnað sje öllu, sem hægt er. Hjer er mest um það að ræða að safna öllu því, sem skrifað er á íslensku, og því, sem um Ísland og Íslendinga og íslensk fræði er ritað, og því þarf líka hjer sem annarsstaðar sjerstaklega bókfróða menn til að hafa forstöðu safnsins á hendi, og þá sjerstaklega þá menn, sem vel eru að sjer í bókmentasögu okkar þjóðar. Að hinu leytinu vildi nefndin þó ekki ganga á snið við sparnaðarviðleitni þingsins, og hefir því fallist á, að aðstoðarmannsembættið við Landsskjalasafnið verði ekki veitt, en eins og kunnugt er, þá er það nú laust. Vinst þá það við þetta, að safnið fær að vera áfram sjerstök stofnun, en eins litlu til hennar kostað sem hægt er. Má raunar búast við því, að með því móti yrði afgreiðslan ekki fullkomin, meðan skráning safnsins er ekki komin í betra horf.

Þá sje jeg, að brtt. er fram komin við þetta frv. eftir að nefndin hefir afgreitt málið frá sjer, og hefir hún því ekki tekið afstöðu til hennar. En persónulega er jeg henni mótfallinn. Jeg hjelt satt að segja, að ekki myndi þurfa svona breið spjót og hægt væri að gera sig ánægðan með, að þetta kæmi fram í nál., og stjórnin mundi telja sig bundna við það. Þetta er hvort sem er ekki nema sparnaðarráðstöfun í svip, en sem auðvitað má halda sjer við eins lengi og vill.

Að lokum leyfi jeg mjer að vænta þess, að háttv. deild felli frv. að þessum forsendum meiri hl. athuguðum. Það verður ekki annað sagt en að á þennan hátt sje rekstur skjalasafnsins allmikið færður niður, svo að sá sparnaður mun vera tiltölulega meiri en hægt er að koma við annarsstaðar.