24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

1. mál, fjárlög 1925

Forsætisráðherra (JM):

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg ætla mjer að segja um þennan kafla fjárlaganna. Mjer finst niðurfærslur nefndarinnar vera mjög vel skiljanlegar. Þó þær komi víða hart niður, þá tel jeg þær víðast forsvaranlegar, því það er yfirleitt fylgt sömu reglu.

Jeg skal geta þess, að jeg hygg að upphæð sú, sem nefnd er í b-lið 9. brtt., við 10. gr., sje heldur lág. Háttv. fjvn. leggur til, að sá liður sje áætlaður 17 þús. kr., en jeg held, að það sje of lítið, og muni ekki veita af alt að 20 þús. kr. til launa handa forstöðumanni og til húsaleigu og yfirleitt til skrifstofuhalds í Kaupmannahöfn. Og ef litið er á þá reynslu, sem fengist hefir á árunum 1922 og 1923, þá virðist auðsætt, að það sje ekki of mikið. Svo getur það líka farið nokkuð eftir gengi íslensku krónunnar hversu hár þessi liður verður. En jeg tel þetta áætlunarupphæð, og er þá ekki af atriði, hvort liðurinn er lítið hærri eða lægri.

Hv. frsm. mintist á skrifstofukostnað landlæknis, og jeg hefi engu við það að bæta, sem hann sagði um þann lið. Jeg býst við, að sá kostnaður hljóti að verða hærri en nefndin hefir áætlað hann.

Að því er snertir 17. brtt. nefndarinnar, þá skal jeg geta þess, að jeg býst við, að það verði mjög erfitt fyrir stjórnina að úthluta þeim styrk, sem ætlaður er til læknisvitjunar í sveitum, sem eiga erfiða læknissókn. Einkum verður það erfitt þegar búið er að klípa utan úr þeim styrk 1500 kr. til sjerstaks læknis, svo hann er aðeins 3500 kr. En jeg finn hinsvegar ekkert að því, þó þessi styrkur hafi verið lækkaður, því mjer finst að hann hefði mátt falla alveg burtu. Það er svo sáralítið, sem hver sveit fær, að það munar ekkert um það. Þess ber líka að gæta, að heilbrigðismálin taka til sín mjög mikið fje, og það hefir farið sívaxandi. Og ef það er borið saman við fyrri tíma, þá má segja, að það hafi vaxið gífurlega síðustu árin.

Sjúkraskýli finst mjer vera rjett að styrkja. Annars tel jeg rjettara, að tekin væri upp sú regla, sem hv. þm. V.-Sk. (JK) leggur til, að þingið veitti ákveðna upphæð á ári í einu lagi, svo mikið, sem það telur fært, til sjúkraskýla og læknisbústaða, og stjórnin úthluti svo styrknum eftir því sem við á.

Jeg hefi svo ekki mikið meira um þetta að segja. Jeg skal taka það fram, að mjer finst býsna hart að lækka styrkinn til „Líknar“. Jeg held það væri rjett að halda þeim styrk eins og hann hefir verið. Sömuleiðis álít jeg rjett að veita sæmilegan styrk til utanferða yfirsetukvenna, því að slíkur styrkur hefir altaf verið veittur síðan fyrst jeg man eftir, og jeg tel hann nauðsynlegan.