26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

97. mál, landhelgissektir í gullkrónum

Tryggvi Þórhallsson:

Aðeins örfá orð um þessa brtt. frá mjer og hv. þm. Barð. (HK). Jeg hygg, að í okkar kjördæmum sje einna mest selveiði, svo að það er ekki af tilviljun, að einmitt við flytjum þessa brtt., heldur fyrir tilmæli manna þaðan. Jeg gat þess annars við 1. umr., að fram mundi koma brtt. í þessa átt. Hygg jeg, að tilvísunin í þskj. sje rjett, en annars er jeg ekki alveg viss um það. Jeg hefi haft talsvert fyrir því að leita að lögum og tilskipunum um þetta efni og hefi ekkert yngra fundið en tilskipunina, sem vitnað er í á þskj. í 5. gr. tilskipunar frá 1849 er svo ákveðið, að sá, sem skýtur dýr eða fugl í landi annars manns, skuli greiða skaðann eftir mati óvilhallra manna og auk þess sektast um hálfan ríkisbankadal eða meira, alt að 10 ríkisbankadölum. í 15. gr. sömu tilsk. stendur:

„Sá, sem brýtur á móti grein þessari, skal gjalda sektir og skaðabætur eftir 5. gr., og þar á ofan 2 rbd. fyrir hvert skot“.

Eins og allir hljóta að sjá, eru þessar sektir orðnar óheyrilega lágar. Finst mjer því full ástæða til að taka þetta með, þegar einmitt er verið að hækka sektir fyrir brot á öðrum lögum um náskylt efni.