18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

85. mál, löggilding verslunarstaðar við Málmeyjarsund

Flm. (Jón Sigurðsson):

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er flutt samkvæmt ósk hreppsbúa í Fellshreppi. Málmeyjarsund innan við Votaberg er skipalægi, og óska hreppsbúar eftir að fá þar löggilta höfn, og geri jeg ráð fyrir, að þeir hugsi sjer að skipa þar upp vörum og jafnvel að fá póstbátinn þangað inn eftir frá Siglufirði. Síldveiðiskip dvelja þar mjög oft, og getur vel verið, að möguleikar sjeu fyrir hendi til að þar rísi upp kauptún með tíð og tíma.

Hefi jeg svo ekki fleira um þetta að segja, en vil aðeins geta þess, að misritast hefir í frv. „á Málmeyjarsandi“ í stað þess að þar á að standa „við Málmeyjarsund“. Mun jeg sjá um, að þetta verði leiðrjett við 2. umr. Jeg geri ekki ráð fyrir, að þörf þyki að láta mál þetta ganga til nefndar, en vil óska, að því verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni.