25.04.1925
Neðri deild: 64. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Árni Jónsson):

Það er þegar búið að ræða svo mikið alment um þetta mál, að jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar út í það. En hinsvegar vildi jeg fara fáum orðum um þær brtt., sem fyrir liggja.

Fyrst vildi jeg leyfa mjer að gera athugasemdir við tvö atriði í ræðu hæstv. fjrh. (JÞ).

Fyrra atriðið var viðvíkjandi afgjaldi af þjóðjörðunum, sem nefndin vill láta renna í ræktunarsjóðinn. Nefndin heldur því fram, að þetta sje í alla staði rjettmæt sanngirniskrafa, en hæstv. fjrh. hefir þá skoðun, að sjóðurinn megi vel við una, þótt hann verði af þessu gjaldi. Heldur þar hver sinni skoðun, og mun ekki stoða að þræta um þetta frekar, svo mikið sem um það hefir verið rœtt.

Þá hefir hæstv. fjrh. komið með brtt., á þskj. 309, um það, að lán til húsabóta komi í flokk þeirra lána, sem greiða skuli af frá byrjun. Rjett er þetta að því leyti, að hús koma strax til afnota, en það er einnig annað í þessu sambandi, sem athuga verður. Svo er mál með vexti, að lán til húsabóta má ekki veita nema sem svarar helmingi virðingarverðs, og verða menn að bjarga sjer sem best gegnir með hinn hlutann. En nú munu fæstir svo efnum búnir, að þeir geti greitt helminginn af andvirði hússins úr sínum vasa, og verða því að taka lán, ef til vill með slæmum kjörum. Mætti þá verða erfitt að greiða afborganir af hvorumtveggja lánunum fyrst í stað.

Þá vík jeg að hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Það var stutt í honum hljóðið og mátti á honum heyra, að í raun og veru hefði hann litla trú á fyrirtækinu, þótt hann væri því fylgjandi. Hann talaði allmikið um lánsstofnanirnar austanfjalls og kvað þær vera illa komnar af því að þær hefðu lánað óvarlega. En jeg vil benda hv. þm. (MJ) á það, að þau lán, sem þar er um að ræða, munu ekki hafa verið veitt til ræktunar, eins og hjer er ætlast til, heldur eru þau afleiðing af almennri fjárkreppu og óáran, sem kom þungt niður á sveitunum þar austanfjalls, og er því ekki hægt að miða við það. En jeg held ekki, að þessi stofnun, sem hjer er verið að koma á fót, þurfi að vera hrædd um það fje, sem fer til ræktunar landsins, því hún er undirstaðan undir búnaðinum og miðar að því að gera hann að tryggum og góðum atvinnuvegi. Ef slík stofnun sem þessi, er hjer um ræðir, hefði verið komin á fót fyrir stríðið og ræktun landsins komin í betra horf, er jeg ekki í neinum vafa um, að fjárkreppan hefði ekki orðið eins tilfinnanleg í sveitum landsins, hvorki austanfjalls nje annarsstaðar.

Hvað því viðvíkur að leggja fasteignamatið til grundvallar, þegar lán skulu veitt út á fasteignir úr sjóðnum, þá skal jeg viðurkenna, að í fljótu bragði hefir það mikið til síns máls. Jeg kannast sömuleiðis við það, að víða hefir verið nokkur tilhneiging í þá átt að virða hátt, en því má ekki gleyma, að það mat, sem við búum nú við, og sem gildir fram að 1929, er miðað við verðlag 1914, og hafa jarðeignirnar skiljanlega hækkað mjög mikið í verði síðan. Því getur ekki talist rjett að veita lán út á jarðirnar samkvæmt þessu úrelta mati.

Þá talaði háttv. þm. Str. (TrÞ) um till. sína um skattfrelsi 1. flokks vaxtabrjefa sjóðsins. Jeg hefi ekki mikið um þessa till. að segja. Mjer finst hún harla lítilvæg. Jeg get gengið inn á, að það muni ekki vera meiningin að ljetta með þessu undir með fjepúkum Íhaldsins, en meiri þýðingu ætti þetta að hafa fyrir eigendur brjefanna heldur en lántakendur. Það er líka svo, að ekki verður alt framkvæmt með þessum flokki vaxtabrjefanna.

Þá lagði sami háttv. þm. (TrÞ) mikið upp úr því, að gæslustjórar sjóðsins yrðu skipaðir samkvæmt till. búnaðarþingsins. Jeg lái honum það ekki, þar sem hann er einn í stjórn þessa fjelags, en annars er þetta að mörgu leyti óheppilegi. Þó mætti hugsa sjer þetta um annan gæslustjórann. Mjer skildist svo á háttv. þm. (TrÞ), að hann legði ekki mikið upp úr góðu samkomulagi milli stjórnar sjóðsins og Landsbankans. Að vissu leyti var þetta gott að heyra, því það bendir á, að brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) muni ekki fá mikinn byr. Því það væri fjarstæða að tala um gott og ilt samkomulag í þessu efni, ef Landsbankinn ætti að taka sjóðinn að sjer. Eða hví ætti að fá sjóðinn í hendur stjórn Landsbankans, ef hún væri sjálfri sjer sundurþykk?

Þá kem jeg að brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), á þskj. 375, við 28. og 29. gr. í 28. gr. frv. er gert ráð fyrir, að stjórn sjóðsins skipi 2 gæslustjórar og einn framkvæmdarstjóri, en þessi till. fer fram á, að Landsbankinn skuli fyrst um sínu hafa á hendi stjórn og afgreiðslu ræktunarsjóðsins, þangað til sjóðurinn sameinist væntanlegum ríkisveðbanka Íslands. En hvaðan hefir hv. þm. (SvÓ) það, að ríkisveðbankinn verði stofnaður, og það mjög bráðlega, eins og hann virðist byggja sínar till. á? Og segjum, að hann verði nú stofnaður. Hver er kominn til að segja, að ræktunarsjóðurinn sameinist honum? Að því hefir einmitt verið stefnt, að þessi sjóður verði sjerstök stofnun. En í till. hv. þm. (SvÓ) er líka aðeins heimild til að sameina hann bankanum. en jeg get ekki ímyndað mjer, að ef ræktunarsjóðurinn reynist vel sem sjerstök stofnun, að þá verði farið að slá honum saman við aðra stofnun. Raunar sagði háttv. þm. (SvÓ), að ríkisveðbankinn væri þegar kominn, — en hvers vegna vill hann þá fela Landsbankanum stjórn ræktunarsjóðsins? Og ennfremur vil jeg spyrja hv. þm., hvort honum finnist ekki, að stjórn Landsbankans hafi nóg að gera nú. Og væri þá ekki eins eðlilegt að fækka bankastjórunum, ef þeir hafa of lítið að gera, eins og að fara að bæta á þá þessari stofnun? Og að lokum vil jeg spyrja hv. þm. (SvÓ), hvaðan honum sje komin heimild til að gera tilboð um þetta, og hvort Landsbankastjórnin hafi gefið ádrátt um að taka þetta að sjer. Hann hjelt því fram, að lítið myndi að starfa við sjóðinn fyrst framan af. En hvers vegna að stofna hann, ef ekki eru líkindi til, að hann verði notaður?

Hæstv. atvrh. (MG) gerði fyrirspurn til mín um afstöðu nefndarinnar til brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Því er að svara, að nefndinni hefir ekki unnist tími til að athuga þær sameiginlega, enda þótti ekki ástæða til að kveðja saman sjerstakan fund um þær.

Svo sem kunnugt er, lágu tvö frv. fyrir nefndinni, annað frá hæstv. stjórn og hitt frá Búnaðarfjelagi Íslands. Í því síðarnefnda er gert ráð fyrir því, að framkvæmdarstjórn sjóðsins verði aukastarf framkvæmdarstjórans, en samkvæmt stjfrv. er það aðalstarf hans. Skal þess og getið, að í nefndinni heyrðist engin rödd um það, að ekki þyrfti sjerstakan mann til að hafa stjórn sjóðsins á hendi. Og þar sem hv. form. nefndarinnar þótti ekki ástæða til að kveðja saman fund út af till. hv. J. þm. S.-M. (SvÓ), mun mega álíta, að nefndin hafi fyrirfram tekið afstöðu til þeirra og leggi á móti því, að þær verði samþyktar.

Þá kem jeg næst að brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Hann hjelt langa og mikla ræðu, enda hefir hann ekki talað áður í málinu. Get jeg tekið undir flest, sem hann sagði. Hann sýndi góðan skilning á nauðsyn aukinnar ræktunar, og eins á nauðsyn aukinna húsabóta, og geta víst flestir verið honum samdóma um það. En það var ekki rjett, að í stjfrv. hefði verið gengið framhjá lánum til húsabóta. Það var líka gert ráð fyrir þeim, en tekið fram, að lán til ræktunar skyldu látin ganga fyrir. Nú eru þau gerð jafnrjetthá, að öðru en því, að til húsabóta fæst lán, sem aðeins svarar til helmings af virðingarverði húsanna.

Viðvíkjandi brtt. hans þarf jeg ekki mikið að tala. Það var svo illa undirbúið, að það var ekki hægt að mæla með því. Síðan hafa bæði hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. þm. Str. (TrÞ) tekið í sama strenginn. Hæstv. fjrh. benti á það, að í tveim atriðum færi till. algerlega í bága við frv., sem hjer liggur fyrir, bæði þar sem brtt. ákveður, að lánstíminn skuli vera 19 ár til þessara tilraunabúa, og að umferðartími vaxtabrjefanna væri lengst 35 ár. Þetta kemur algerlega í bága við vaxtaákvæði sjóðsins í frv. Eins er þar, sem talað er um, að vextir af þessum lánum sjeu 2% lægri en frv. gerir ráð fyrir.

Hv. þm. Str. (TrÞ) upplýsti nokkuð í málinu, sem er hreint ekki lítilsvert og sem sannar mitt mál, hvernig hefir verið kastað til þess höndunum, sem sje að þessi stofnun, sem á að fá fjárframlag hjá sjóðnum, hefir alls ekki verið spurð álits. Hv. þm. Str. er í stjórn Búnaðarfjelagsins og hann hefir þegar upplýst, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir alls ekki nefnt þetta við hana. Hann fór miklu harðari orðum um þetta, háttv. þm. Str., heldur en mjer hafði dottið í hug, því hann kvað till. bæði óframbærilega og algerlega óhæfilega.

En þótt jeg fyrir mitt leyti sje hlyntur þessari hugmynd, að koma á fót fyrirmyndarbúum, og álíti það einkar heppilegt, þá er mjer samt aldeilis ómögulegt að ganga inn á röksemdirnar fyrir þessari tillögu.