31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

1. mál, fjárlög 1926

Pjetur Ottesen:

Það eru aðeins nokkur orð viðvíkjandi því, sem hæstv. fjrh. (JÞ). sagði um eftirgjöf á viðlagasjóðsláni til Hvítárbakkaskólans.

Það, sem hæstv. ráðherra sagði um formhliðina á þessu máli, hvar þessu væri rjettast skipað niður í fjárlögum, sýnist mjer ekki skifta rniklu máli. En vel má vera, að það væri reikningslega rjettara að fara svo að, sem hann benti á.

En að því leyti, sem orð hæstv. ráðherra lutu að því að mæla heldur á móti þessu liðsinni við Hvítárbakkaskólann, sem hann virtist líta svo á, að stofnað hefði verið til með Ijettúð og lítilli fyrirhyggju, þá vil jeg benda hæstv. ráðherra á, að það, sem þeir fara fram á við Alþingi, er ekkert annað eða meira en að þeir njóti sömu fjárhagsaðstöðu hjá ríkinu, hvað stofnkostnað skólans snertir, eins og alþýðuskóli sá, sem nýlega hefir verið reistur, og sá skóli, sem fara á að reisa og tillögur liggja fyrir um að veita fje til. En með þeirri lánsupphæð, sem hjer er farið fram á að gefa skólanum eftir, nýtur skólinn engan veginn jafnrjettis hvað þetta snertir við yngri skólana. Það má vel vera, að það hafi verið nokkuð djarft teflt hjá Borgfirðingum, er þeir rjeðust í að kaupa Hvítárbakkaskólann, einmitt á þeim tíma, sem alt var í sem hæstu verði. Því neitar enginn, að þeir færðust mikið í fang með þessu. En hefðu þeir ekki gert þetta, var engin trygging fyrir, að skólanum hefði verið haldið áfram. Hitt miklu líklegra, og enda víst, að skólinn hefði þá ekki verið rekinn, ef ekki hefði verið í þetta ráðist. Borgfirðingum var sárt um skólann. Þeir höfðu fengið þá reynslu af honum, að nemendur fengju þar ekki síður holla og góða fræðslu en þó að þeir leituðu til kaupstaðanna. Þeir vildu því mikið til vinna, og það því fremur, sem með þessu var betur en ella stemt við þeim mikla straum, sem altaf er af ungu og upprennandi fólki til kaupstaðanna, sem mörgum stendur stuggur af.

Það má vitanlega segja um margt af því, sem framkvæmt var á stríðsárunum, að til þess hafi verið stofnað með ljettúð og lítilli fyrirhyggju. Það er ofurauðvelt að benda á það eftir á og færa rök fyrir því.

En það er nú svo, að flestum veitist erfitt að sjá fyrir rás viðburðanna, og því er nú svo komið sem komið er með margt, bæði hjer og annarsstaðar. En því verður ekki neitað, að það var ekki að nauðsynjalausu, að Borgfirðingar reyndu að tryggja rekstur skólans í framtíðinni, þó að þeir yrðu að leggja mikið á sig til þess.

Þótt Borgfirðingar hafi nú ef til vill teflt nokkuð djarft í þessu efni, þá hygg jeg, að það sje ekki mikið í samanburði við þá ofdirfsku — mjer liggur við að segja fífldirfsku — þeirra manna, sem t d. stjórnuðu Eimskipafjelaginu á stríðsárunum, og landið verður nú að súpa seyðið af, og hver veit hvað lengi.

Í núgildandi fjárlögum og fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir, er Eimskipafjelaginu ætlaður 105 þús. kr. styrkur hvort árið. Auk þess þótti á síðasta þingi óhjákvæmilegt að undanþiggja fjelagið tekju- og eignarskatti, og að miklu leyti bæjar- og hreppsgjöldum um nokkurt árabil. Þeir menn, sem að þeim stórræðum hafa staðið og eru þess valdandi, að svona er komið fyrir fjelaginu, ættu að gæta bjálkans í sínu eigin auga, áður en þeir fara að fjargviðrast um flísina í auga bróður síns.