31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

1. mál, fjárlög 1926

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg er einn þeirra þingmanna, sem munu greiða atkvæði móti ýmsum fjárveitingum gegn vilja sín um. vegna þess, að þarfir eru meiri er geta. Þó hefir nú sú breyting orðið til batnaðar á fjárhag landsins, að hægt et að styrkja ýmislegt, sem ekki var hægt að sinna í fyrra, og jeg er viss um, að þeir hv. þm. verða margir, sem ekki neiti sjer um þá ánægju.

Jeg vil þá fyrst minnast á eina brtt. sem fer fram á 6000 kr. fjárveitingu til að rannsaka á hvern hátt iðnefnafræði megi að gagni koma í sambandi við sjávarafla Jeg er satt að segja hissa á, að sjútvn. skyldi ekki koma fram með þessa till. Jeg þarf ekki að rekja hjer, hvílíkur hagnaður ríkissjóði, hvað þá einstaklingum, mætti verða að því að afla sjer iðnefna í landinu sjálfu, og þá fyrst og fremst úr sjávarafurðum. Hjer er mörgu fleygt í sjóinn aftur, sem að öðrum kosti mætti hagnýta sjer til gagns og gróða, og margt flutt út hrátt, sem gera mætti að dýrmætri vöru innanlands. Þótt þessi tillaga sje borin fram vegna sjávarútvegsins, vona jeg, að allir geti orðið sammála um hana, hvern atvinnuveg sem þeir stunda.

Þá vildi jeg minnast nokkuð á till. um styrk til þriggja skálda. Sný jeg mjer fyrst að Stefáni frá Hvítadal. Hann á í fyrsta lagi þennan styrk mjög vel skilinn, að mínu áliti, og í öðru lagi þarf hann hans með. Hann er maður kvæntur og á fjögur börn, en hins vegar næstum efnalaus, og liggur nú mjög þjáður á Vífilsstöðum. Menn mega þó ekki skilja orð mín svo, að jeg vilji láta veita honum styrk þennan af meðaumkun einni. En hver veit, nema þetta sje síðasta tækifærið, sem oss býðst, til að þakka honum sjálf um og sýna honum viðurkenningu. Má vera, að sá tími nálgist, að slíkt verði um seinan.

Þá kem jeg að Halldóri Kiljan Laxness. Mjer hefir skilist, að það hafi dregið allmjög úr fylgi við styrk til hans, að hann er kaþólskur. Mun það vera af þeirri ástæðu, að menn telja kaþólska kirkju meira stórveldi og því öflugri til hjálpar en ríkissjóð Íslands. En sannleikurinn er sá, að þeir Halldór og Stefán hafa ekki meira upp úr því að vera kaþólskir en vjer hinir að vera lúterskir. Þó mundi Halldóri standa gott lífsuppeldi til boða innan hinnar kaþólsku kirkju, ef hann gerðist prestur eða munkur, sem er ef til vill ekki allfjarri honum. En jeg vildi óska, að til þess kæmi ekki, að hann hneppi skáldgyðju sína í klaustur, eða gefi hana saman við Thomas frá Aquino og slíka karla. Jeg held að slík sambúð yrði tæplega frjósöm. Það er mikill atburður í þjóðfjelaginu, þegar ágætir rithöfundar koma fram, og má ekki minna vera en að fjárveitingarvaldið sýni, að það gefi gaum að slíku. Jeg vil nú vona, að bæði Davíð og Stefán verði látnir njóta kvæða sinna, og Halldór Kiljan rithöfundargáfu sinnar, en allir njóti þeir góðæris síðasta árs.

Jeg játa það, að þessi mál eru erfið viðfangs fyrir marga hv. þm., og það er óskandi, að einhver sú skipun komist á í framtíðinni, að ekki þurfi það að koma til þingsins kasta að gera upp á milli rithöfunda. Það hefir verið reynt að losa þingið við þetta, en mistekist. Jeg vil nú leyfa mjer í þessu sambandi að skjóta hjer fram uppástungu, sem vel mætti verða til gagns. En hún er þannig, að stofnað verði hjer á landi íslenskt academi, að dæmi annara þjóða. Það munu vera Frakkar, sem fyrstir tóku slíkt upp, en síðan hafa margar þjóðir farið að þeirra dæmi. Slíkt academi mætti stofna hjer á þann hátt, að stjórnin leitaði til þriggja manna, sem mest sköruðu fram úr í bókmentum. listum og vísindum, og óskaði þess, að þeir veldu sex menn í viðbót. En síðan endurnýjaði þetta níu manna academi sig sjálft. Þetta academi, sem skipað væri ágætustu mönnum landsins í bókmentnm. vísindum og listum, fengi síðan til ráðstöfunar það fje, sem Alþingi veitti árlega til eflingar listinni og bókmentum. Jeg nefni þetta hjer af því, að mikil nauðsyn ber til þess, að hjer verði sett nýtt fast skipulag. Þingið hefir oft sýnt góðan vilja í því að ráða sem best fram úr þessu sjálft, þrátt fyrir allar skammir, sem það hefir löngum fengið. En það fyrirkomulag, sem ráðið hefir hingað til, er samt öldungis óviðunandi.