07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

8. mál, verslunaratvinna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer sýnist flestir vera farnir úr deildinni, og veit jeg því ekki, hvort það hefir nokkra þýðingu að fara að ræða málið nú. (KIJ: Það er ekki verra en vant er).

Hv. frsm. meiri hl. (JBald) sagði, að jeg hefði skilið orð hans rjett, að frv. þetta gengi í þá átt að rýmka aðgang að verslun. Þetta er fjarri öllum sanni. Frv. gengur í þveröfuga átt, og það hefði hv. frsm. átt að geta sjeð, ef hann aðeins hefði kynt sjer núgildandi löggjöf í þessu efni. Og vil jeg því benda honum á, að í frv. þessu eru sjerstök ákvæði um vöruþekkingu verslunarmanna, sem ekki eru í eldri lögum. Sömuleiðis eru sett ný ákvæði um bókfærsluþekkingu manna, búsetu o. fl., o. fl., sem ekki voru áður í lögum. Alt þetta miðar að því að þrengja aðgang til verslunar, en ekki rýmka. Það eina, sem má telja rýmkun frá því, sem áður var, er, að sami maður má eftir frv. versla í fleiri en einum stað í sama kaupstað.

Af öllum þessum fjölda brtt. hv. meiri hl. mun jeg einungis ræða þær till., sem eru efnisbreytingar. Sparðatíninginn læt jeg vera, en svo nefni jeg ýmsar brtt., sem hv. meiri hl. allshn. kveðst flytja til þess að laga málið á frv.

Frv. þetta er samið af prófessor Einari Arnórssyni, þeim manni, sem jeg þekki bestan íslenskumann og færastan lögfræðing. Og jeg fyrir mitt leyti er sannfærður um, að hv. meiri hl. allshn. tekur honum þar alls ekki fram.

Skal jeg þá fyrst snúa mjer að þeirri brtt. hv. meiri hl., að þeir, sem versla með innlendan iðnaðarvarning, þurfi ekki verslunarleyfi. Jeg get gengið inn á að rýmka þetta ákvæði svo, að þeir, sem versla með sínar eigin afurðir, þurfi til þess ekkert verslunarleyfi. En að maður, sem kaupir iðnaðarvörur af öðrum til þess að selja aftur, þurfi ekki verslunarleyfi, er alveg óhæft, enda á það sjer hvergi stað. Það sæist best, ef þetta land væri iðnaðarland, hversu mikil fjarstæða þetta er.

Jeg vænti því, að hv. nefnd taki till. þessa aftur til 3. umr.

Þá vill nefndin fella burt orðið „tilboðasöfnun“, en setja í þess stað orðið „farsölu“. Jeg veit ekki vel, hvað þetta orð „farsala“ þýðir, en líklega mun það helst þýða sama og „farseðlasala“. Þetta getur þó ekki verið tilætlun hv. nefndar, heldur mun hjer vera átt við það, sem í lögum frá 1907 er nefnt „farandsala“. En hvers vegna nefndin þá hefir ekki viljað nota það orð, skil jeg alls ekki. Orðið er góð íslenska. í Njálu er t. d. talað um „farandkonur“. En aðalatriðið í þessu er það, að orðið „tilboðasafnarar“ má ekki falla burtu, hvort sem í staðinn kemur „farsala“ eða „farandsala“, vegna þess að farandsala nær alls ekki til allrar tilboðasöfnunar, heldur aðeins til þeirrar tilboðasöfnunar, sem er framkvæmd á ferðalagi. En allir vita, að til eru tilboðasafnarar, sein hafa fast aðsetur hjer á landi og aldrei ferðast neitt til þess að safna tilboðum.

Brtt. hv. nefndar um, að menn þurfi að hafa verið búsettir 3 ár hjer á landi áður en þeir fá verslunarleyfi, tel jeg fara of langt. Það eru mýmörg dæmi þess, að Íslendingar flytja hingað aftur eftir að hafa verið búsettir erlendis. Og að fara að útiloka þá um svo langan tíma frá verslunarleyfi, fyrir það eitt að hafa verið utan nokkur ár, sýnist mjer engin ástæða til.

Næst vildi jeg gjarnan minnast á brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) við 4. gr., um að bæjarstjórnir eða sveitarstjórnir skuli segja til um, hvort veita megi skipstjórum, hafnsögumönnum og embættismönnum verslunarleyfi. Jeg sje ekki, að þessi till. sje til bóta. Ef hún yrði samþykt, er hætt við, að farið yrði eftir sinni reglunni á hverjum stað um þetta, og reyndin yrði sú, að reglurnar yrðu jafnmargar og bæjar- og sveitarstjórnirnar, sem ákveða þyrftu um þetta. En ef atvinnumálaráðuneytið úrskurðaði þetta, myndi myndast ein regla, sem farið yrði eftir um alt land. Jeg legg ekki mikla áherslu á brtt. við 5. gr„ um að leyfa ekki undanþágu um hlutafje. Hent gæti, að slíka undanþágu þyrfti að veita, en ef hv. þingdeild er það á móti skapi, skal jeg ekki gera það að kappsmáli. Sama máli gegnir um brtt. hv. meiri hl. um að setja inn „og almenningsheill krefur“.

Það eru víst aðeins orðabreytingar við 6. gr. nema brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), um að fella burtu „nema sveitaverslun sje“. Það er, að heimila ekkju manns. er stundaði sveitaverslun, að halda henni áfram eftir dauða hans. Ákvæði frv. eru samkvæm gildandi lögum. Sá jeg ekki ástæðu til að breyta þeim í þessu efni, en þó skal jeg ekki hafa á móti, þótt þessi brtt. verði samþykt.

Brtt. við 7. gr. eru aðeins mjög lítilfjörlegar orðabreytingar, og er jeg hálfhissa, að hv. nefnd skyldi nenna að elta ólar við slíkt, einkum af því að það er síst til bóta, sem hún hefir gert. Sjerstaklega er svo um síðari brtt, við 7. gr„ að í stað „málinu“ komi: „þessu“. Þetta getur valdið misskilningi, en það gerir frv.-greinin ekki.

Þá kemu hin mikilvæga brtt. við 10. gr.: Í stað „Greina skal í verslunarleyfi komi: „í verslunarleyfi skal greina“. Mjer finst satt að segja hvorttveggja jafngott. Mun jeg leggja það undir smekk hv. þd. að meta, hvort betra sje, og langt frá því deila við háttv. meiri hl. um þetta. Vildi aðeins benda á það, af því að það sýnir átakanlega sparðatíning hv. meiri hluta nefndarinnar.

Um það atriði, hvort sami maður megi versla á fleirum en einum stað í sama kauptúni eða kaupstað, vil jeg aðeins segja það, að þetta hefir sáralitla þýðingu nema á stærri stöðum, og líklega eingöngu hjer í Reykjavík. En ástæðan til að fella þetta burt er sú, að hjer er, þrátt fyrir bann gildandi laga, verslað á fleirum en einum stað, með því móti, að breytt er lítilfjörlega um nöfn eða verslunin rekin undir annars nafni. Enda er svo alstaðar í stórum borgum, að sami maður hefir útsölur í borginni á fleirum en einum stað. Jeg geri þetta ekki að kappsmáli, en mjer virðist það hafa litla þýðingu að banna þetta, þegar víst er, að menn muni fara í kringum það eins og þeir hafa hingað til virt að vettugi samskonar ákvæði gildandi laga frá 1841. Jeg verð líka að taka undir það með háttv. frsm. minni hl. (JK), að mjer virðist orðið „verslunarumdæmi“ svo óákveðið, að ómögulegt sje að vita, hvað það þýðir. Líklega á það að merkja ákveðið kauptún og þá jörð, sem heimilað er að reka sveitaverslun á, — eða er það ekki meining hv. nefndar? Jeg að minsta kosti þekki ekki annað sveitaverslunarleyfi en að leyft er að reka verslun á ákveðinni jörð, og ætti þá verslunarumdæmið í því falli að merkja það, sem er innan landamerkja þeirrar jarðar. Nú kemur kannske nánari skýring á þessu, og vil jeg því bíða með að ræða það frekar þangað til.

Hv. meiri hl. nefndarinnar og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) vilja auka mikið við skilyrðin fyrir sveitaverslunarleyfi og hafa gengið alt of langt til þess að draga úr heimildinni til að veita það. Mjer finst eðlilegast að láta sýslunefndirnar ráða þessu, eins og hingað til, enda hefir engin óánægja sprottið út af því. Jeg get ekki sjeð annað en að sýslunefndirnar sjeu fullfærar til að setja þau skilyrði, sem þörf er á fyrir leyfinu. Sjerstaklega finst mjer það ósanngjarnt að setja það skilyrði, að maðurinn sje búsettur í sýslunni, þegar leyfið er veitt. Virðist að minsta kosti vera nóg að skipa honum að setja sig þar niður. Og alveg fráleitt virðist mjer að setja það að skilyrði fyrir leyfinu, að maðurinn hafi ábúð á jörð eða jarðarhluta. Sveitaverslunarleyfi er ekki veitt nema viðkomandi sýslunefnd telji það heppilegt að hafa verslun í sveitinni, — og hvað kemur það málinu við, hvort maðurinn býr á jörð eða ekki? Skifti það máli, getur sýslunefnd gert það að skilyrði, en að krefjast, að svo sje altaf gert, er fjarstæða.

Þá er brtt. hv. meiri hl. við 13. gr. í stað þess, að verslunarleyfisgjöld renni í ríkissjóð og fyrir leyfin skuli greiða o. s. frv. vill nefndin setja: „Verslunarleyfisgjöld renna í ríkissjóð, og skal greiða fyrir þau sem hjer segir“. Þetta segir nú hv. meiri hl., sem er með allan sparðatíninginn í orðabreytingunum. Hann vill láta greiða svo og svo mikið fyrir gjö1din, en ekki 1eyfi n, eins og stendur í stjórnarfrv. Dálagleg meinloka þetta og sýnir glögglega aðferð meiri hl. nefndarinnar gagnvart frv.

Um sjerstakt árgjald þeirra, er verslun reka, er það að segja, að það var sett inn í hv. Ed. á móti vilja núnum, svo jeg get ekki verið á móti því, að það sje felt burtu hjer.

Svo eru hjer brtt. við 14. gr., mest ómerkilegar orðabreytingar, svo sem að í staðinn fyrir „maður“ komi: einhver. Jeg veit, að Halldór Friðriksson hefði ekki viljað hafa „maður“; en jeg ætla, að sá, er samdi þetta frv., sje engu síðri íslenskumaður en hann var.

Í staðinn fyrir „hafi ekki ómöguleiki tálmað“ á að koma: valdi því ekki almennar tálmanir. Hið fyrra er nú lögfræðilegur „terminus“ fyrir það, sem kallast „objectiv Umulighed“, og það orðatiltæki er kent hjer við háskólann og öllum laganemum ljóst, að það er mótsetning við „subjectiv Umulighed“. Og sje jeg því ekki, að brtt. hv. meiri hl. sje til bóta.

Jeg tel, að ekki sje rjett að fella burtu 15. gr. Höfundur frv. er prófessor í ríkisrjetti hjer við háskólann, og hann telur nauðsynlegt að hafa þessa grein. Það er líka svo, að löggjöf hvers lands verður að vera í samræmi við milliríkjasamþyktir, og ekkert er á móti því að leiða athygli manna að því, að vera kunni, að það þurfi að leita út fyrir lög um verslunaratvinnu til þess að afgera, hvort ber að veita eða neita um heimildina til verslunar.

Brtt. við 16. gr. er óþörf, og ef menn vilja fara í hártoganir, getur hún orðið villandi, því hægt væri að segja, að hún ætti við fulltrúa yfirleitt.

Við brtt. hv. minni hl. nefndarinnar hefi jeg ekkert að athuga; jeg tel, að þær sjeu til bóta, enda skilst mjer, að báðir nefndarhlutarnir hafi verið sammála um þær, nema einn maður, sem hefir gert sjerstakan ágreining.

Að sinni skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um málið, en verð að segja, að það virðist nokkurnveginn sýnilegt, að með þessum mörgu brtt. eru svo miklir steinar lagðir í götu þessa frv., að það verður að líkindum mjög erfitt eða jafnvel ómögulegt að koma því fram á þessu þingi.