07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

8. mál, verslunaratvinna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer þykir vænt um að heyra það, að háttv. allshn. lítur svo á, að frv. eigi að ganga fram, en hún hefir ekki sýnt það vel í verkinu, því að ef frv. þarf nú aftur að fara til hv. Ed., þá munar það miklu, hvort það fer þangað með mörgum breytingum eða fáum, þar sem nú er komið að þinglokum.

Þá vil jeg minnast á orðið „farsali“, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) segir, að sje myndað eins og „farmaður“, þ. e. a. s. kaupmaður, sem sigli milli landa. Þetta orð er ekki rjett myndað yfir hugtakið „tilboðasöfnun“, því að það er hægt að safna tilboðum án þess að sigla milli landa, eða yfirleitt ferðast nokkuð. Það er ekki hægt að neita því, að hjer er átt við hina sömu menn, sem á útlendu máli eru nefndir „Agenter“. Jeg fann það líka á hv. þm. (MT), að hann er ekki ánægður með orðið. (MT: Nei, nei!).

Út af iðnvörusölunni skal jeg geta þess, að jeg þekki ekkert land, þar sem menn sjeu undanþegnir verslunarleyfi, ef þeir versla eingöngu með innlendar vörur. (JBald: Það er gert hjer). Jeg sagði annarsstaðar. Ef einhver keypti alla dúkana frá Álafossi og seldi þá svo aftur, þá finst mjer, að hann eigi að hafa til þess verslunarleyfi. Og lög þessi eru ekki um það að styðja innlendan iðnað, heldur til þess að ákveða, hvaða gjald menn eigi að greiða fyrir það að fá að reka þessa atvinnu. En jeg er nefndinni samþykkur um það, að undanskilja þá menn, er versla eingöngu með sínar eigin framleiðsluvörur.

Mjer fanst hv. 1. þm. Árn. (MT) ekki fara rjett með 3. lið 1. gr. frv., þar sem kann sagði, að menn þyrftu að mynda fjelög til þarfa sinna. Í frv. stendur: „Vöruútvegun manna í fjelagi til þarfa sinna“. (MT: Það er fjelag). Hv. þm. (MT) veit vel, að maður getur verið í Fjelagi með öðrum án þess að myndað sje sjerstakt fjelag.

Um verslun á fleiri en einum stað er það að segja, að samvinnufjelögin hafa nú rjett til slíks. Verði þetta samþykt, er sú heimild tekin af. (MT: Eru ekki sjerstök lög um það?). Hjer er verið að setja almenn lög. (MT: Svo). Jú! (MT: Það er gott að vita það!). En samvinnulögin verða ekki afnumin í heild, þótt þetta atriði sje tekið út úr. Jeg er hissa á því, að hv. þm. (MT) skuli ekki hafa athugað þetta frv. svo vel, að hann viti þetta. Allsherjarnefnd Ed. var ekki í vafa um þetta.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) vill, að það sje skilyrði fyrir leyfi til verslunar í sveit, að viðkomandi hafi jörð til ábúðar. Jeg álít, að sýslunefndir eigi að ráða þessu og að þær sjeu fullbærar um að ráða því til lykta. Þegar jeg veitti leyfi til sveitaverslunar, þá batt jeg það við ákveðna jörð jafnan, og veit jeg ekki betur en að það sje „praksis“.

Það er máske ekki nauðsynlegt, að 15. gr. standi í frv., en hún getur þó aldrei gert neitt mein.

Um brtt. við 16. gr. má segja, að það er sama, hvort hún er samþykt eða ekki. Það má benda á 100 dæmi um það, að ráðherra sje falið þetta eða hitt, og er þá átt við ráðuneyti hans. Hið sama má segja um lögreglustjóra, að þar er átt við skrifstofur þeirra eða umboðsmenn.