07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

8. mál, verslunaratvinna

Frsm. minni hl. (Jón Kjartansson):

Það eru aðeins tvö atriði, sem jeg vildi minnast á út af ræðu hv. frsm. meiri hl. allshn. (JBald). Út af brtt. við 1. gr. frv. vil jeg taka það fram, að það hlýtur að skifta ákaflega miklu máli, að það sje markað skýrt og ákveðið, hvað lögin nái yfir. Eftir till. hv. meiri hl. virðist hann ætlast til þess, að verslunarleyfiskvöð skuli eingöngu miðaat við verslun á útlendri vöru. En það nær vitanlega engri átt, og væri með því gengið miklu lengra en nú er í lögum. Ef hv. meiri hl. vildi kynna sjer almenn viðskiftalög frá 31. júlí 1911, einkum 4. gr. þeirra laga, þar sem það er skilgreint, hvað sje kaupmaður, þá sjest, að það fer mjög í sömu átt og þetta frv. Að vísu kennir nokkurs misskilnings þar sem taldar eru undantekningar frá hinu almenna, þar sem segir, að sá, sem rekur veitingar, handiðn, flutninga eða þess kyns smásölu, „sem ekki þarf borgarabrjef til“, sje ekki talinn kaupmaður. Að miða undantekningar þarna við það, hvort borgarabrjef þurfi til atvinnunnar, er ekki rjett, því að hvort borgarabrjef þarf eða ekki, fer eingöngu eftir því, hvort verslað er með útlenda eða innlenda vöru. Fræðimaðurinn prófessor Jón Kristjánsson tekur skýrt fram í Kröfurjetti sínum, að hjer væri um ranga eða ónákvæma skýringu að ræða hjá löggjafanum. Því samkvæmt íslenskum lögum enn í dag er borgarabrjefsskyldan bundin við það, hvort verslað er með innlenda eða útlenda vöru. En eins og upphaf 2. málsgreinar 4. gr. hinna almennu viðskiftalaga frá 1911 ber með sjer, þá er verslun mjög margt annað. Þar er skýrt, hvað kaupmaður sje, en á því veltur þá einnig, hvað verslun er. Sá maður er þar talinn reka verslun, „sem hefir atvinnu af því að selja vöru, sem hann hefir í því skyni keypt“. Hjer er enginn greinarmunur gerður eftir því, hvort varan er innlend eða útlend, eins og rjett er. En í síðasta málslið 4. gr. kemur svo þessi misskilningur, sem jeg gat um. En þar er vafalaust skilningur próf. Jóns Kristjánssonar, sá, er jeg gat um, rjettur, og er það ákaflega mikilsvert þegar samin eru jafnþýðingarmikil lög og lög um verslunaratvinnu, sem standa eiga til frambúðar, að þá sje ekki hvikað frá þessum skilningi.

IIv. frsm. meiri hl. (JBald) vildi vjefengja það, að þessi lög, sem hjer ræðir um, snertu nokkuð samvinnufjelögin. Jeg skil ekki, hvernig hann getur ímyndað sjer, að lög, sem snerta almenna verslunaratvinnu, snerti á engan hátt fjelög, sem hafa það starf að reka verslun, eins og á sjer stað með þau samvinnufjelög, sem hjer ber mest á, sem eru kaupfjelögin. — Jeg er sannfærður um, að hv. þm. (JBald) muni geta áttað sig á þessu, ef hann athugar rækilega 5. lið 3. gr. og 1. lið 5. gr. Í 1. málslið 5. gr. er beinlínis talað um samvinnufjelög og í nál. í hv. Ed. er það skýrt tekið fram, að brtt. sje gerð við ákvæði stjfrv. um kröfur til þeirra, sem slíkum fjelögum stjórna, vegna þess að þau þyki of ströng. Mjer skilst, að þessi misskilningur stafi af því, að hv. meiri hl. blandar saman samvinnufjelagi og pöntunarfjelagi, sem hefir rjett til þess að panta vörur handa sínum fjelögum, en ekki rjett til þess að reka verslun. Ef hv. meiri hl. athugar 27. gr. samvinnulaganna frá 1921, þá mun hann sjá, að ef samvinnufjelög reka verslun, þá falla þau að því leyti undir þær reglur, sem gilda alment um verslun. Hv. frsm. meiri hl. (JBald) vildi sanna sitt mál með því að spyrja, hvaða greinir eða ákvæði samvinnulaganna væru feld hjer með úr gildi. Þessi lög fella ekkert úr gildi í samvinnulögunum, vegna þess að þau koma hvergi í bága við þau. En ef brtt. hv. meiri hl. við 10. gr. frv. er samþykt, þá er niðurlagsmálsgrein 27. gr. samvinnulaganna fallin, því þar af leiðir, að þau mega ekki hafa fleiri en einn útsölustað. Annars vil jeg ekki deila við hv. meiri hluta um þetta, því jeg skil ekki annað en allir sjái, að hv. frsm. (JBald) er hjer á rangri braut.

Jeg mintist áðan nokkuð á brtt. háttv. meiri hl. við 10. gr. frv. Jeg vil nú fara þess á leit við hv. frsm. meiri hl. (JBald) að taka þá till. aftur til 3. umr. Jeg er alveg viss um, að við nánari athugun mun hann sjá, að brtt. fjallar um alt annað en sjálf greinin. Hjer mætti bæta við nýrri grein, en við frvgr. má ekki hreyfa eins og hún er. Þetta er augljóst, ef frv. frá 1922 er athugað, en það er nákvæmlega eins, grein fyrir grein, og þetta frv., en þó er þar ekki farið fram á að nema úr lögum ákvæði opna brjefsins frá 1841. í aths. stjórnarinnar við 17. gr. er það tekið fram, að ekki sje ástæða til að halda ákvæðum opna brjefsins áfram, en 10. gr. er ekki breytt. Ef nú ekki vakir annað fyrir hv. meiri hl. en þetta um opna brjefið úr 17. gr., þá er æskilegt, að brtt. við 10. gr. verði tekin aftur, en brtt. við 17. gr. sett inn við 3. umr. málsins.