07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

8. mál, verslunaratvinna

Magnús Torfason:

Mjer skilst á hæstv. atvrh. (MG), að ekki sje margt nú orðið við tillögur nefndarinnar að athuga, nema þetta orðaskak, sem hann telur óþarft.

Að því er snertir brtt., skal jeg fyrst nefna farsölu. Jeg verð að halda því fram, að tilboðasöfnun sje ekki nema hluti af hugtakinu „agentur“ og farsala ekki heldur. En jeg held, að orðið farsala sje tvímælalaust betra en hitt.

Hvað innlendan iðnað snertir, vil jeg leggja áherslu á, að aldrei kæmu til mála nema örfáir menn, sem nytu þess frelsis að fá verslunarleyfi. Þá vildi hæstv. atvrh. segja, að samvinnulögin, einkum 27. gr. þeirra, væri upphafin með þessum lögum. (Atvrh. MG: Ekki upphafin). Jæja. En ef við fjellumst á, að ekki mætti nema einn hafa verslunarleyfi á sama stað, væri upphafið leyfi samvinnufjelaganna í 27. gr. samvinnulaganna til þess að hafa fleiri útsölustaði en einn. Þessa grein ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að hafa yfir:

„Heimilt er samvinnufjelögum, er leysa borgarabrjef, að hafa verslunarviðskifti við utanfjelagsmenn, hvort heldur er aðaldeild fjelagsins eða útibú — — “.

Að þessu leyti vísa þau til verslunarlöggjafarinnar yfirleitt, og að því leyti getur það til sanns vegar færst, að samvinnufjelögin komi undir 5. gr., þó að hún beri það ekki með sjer og hvergi í athugasemdunum sje bent á það.

Eftir fyrri hluta 27. gr. getur þetta þannig til sanns vegar færst, en síðari hlutinn hljóðar þannig (með leyfi hæstv. forseta) :

„Ennfremur er þeim heimilt að hafa útsölustaði í sama kauptúni, svo marga sem viðskiftaþörf krefur.“

Þetta eru sjerrjettindi, sem samvinnufjelögin hafa fengið, eða undanþága frá hinni almennu verslunarlöggjöf. Þá er spurningin, hvort þessi síðari yrði upphafin með brtt. okkar. Hvað þetta snertir, ber fyrst að líta á það, hvort þessi lagabálkur sje tæmandi, en það hugsa jeg, að sje mjög vafasamt.

í 17. gr. frv. er berum orðum sagt, að ein lög að minsta kosti standi óhögguð, sem vita að verslun og eru þáttur í verslunarlöggjöfinni, en það eru lög nr. 78, 22. nóv. 1907, um farsölu. Aðeins 6. gr. þeirra laga er upphafin. Jeg hjelt, að þá væri rökrjett afleiðing af því, að ef upphafinn væri rjettur samvinnufjelaganna í 27. gr. samvinnulaganna, hefði það líka verið tekið upp í hið upphaflega stjfrv. og vísað til þess á sama hátt. En jeg hjelt, að þar sem lögin yrðu ekki tæmandi, og þetta eru sjerrjettindi, væri ekki hægt að líta svo á, að þau væru upphafin, þó að við settum þetta inn.

Þá hefir hæstv. atvrh. haft á móti orðinu „umdæmi“. En landinu var þó skift í umdæmi í gamla daga, svo að þetta orð er gott og gilt. Í þessu sambandi sagði hæstv. atvrh., að jeg hefði skilið 5. gr. laga 7. nóv. 1879 á þá leið, að sá búandi, sem hefði verslunarleyfi, mætti aðeins versla á tiltekinni jörð, og hjelt fram, að þetta væri praksis. En jeg hefi aldrei skilið þetta svo. Enda hafa menn flutt af jörðum sínum og haldið leyfinu, nema því aðeins, að þeir flyttu úr sveitinni. Í þessu frv. stendur, að verslunarleyfið sje aðeins bundið við ákveðið kauptún eða sveit. Þarna er sagt „sveit“, en ekki „jörð“, og því gátum við ekki notað orðið „verslunarstaður“, eins og við ætluðum fyrst. Jeg sje því enga ástæðu til, að við tökum greinina (6. e.) aftur.

Jeg verð að segja, að við þessar umr. hefir komið í ljós, að nefndin hefir frekar haldið of skamt en of langt, og skal jeg játa það, að hún hefir ekki haft nægan tíma til að athuga málið eins vel og æskilegt hefði verið. Nú hefir henni verið storkað með því, að hún þættist hafa betra vit en prófessor Einar Arnórsson. Okkur dettur ekki í hug að jafna okkur við hann, en þó er það svo, að betur sjá augu en auga. Undir umræðunum hefi jeg orðið var við, að í 10. gr. er málvilla. Þar stendur „á fleirum stöðum en einum.“ En nú hefir mesti málfræðingur þessarar hv. deildar sagt mjer, að það eigi að vera „fleiri“ stöðum.

Jeg held, að ekki sje ástæða til að gera miklar umr. út af lítilsháttar verslun eða sölu. Jeg veit, að menn úti um sveitir landsins láta oft kunningja sína selja afurðir sínar fyrir sig. Gegn þessu er ekki vert að stofna til nýrra laga. Alveg eins veit jeg, að sveitamenn búa til ýmislegt og fá menn til að selja það fyrir sig, þó að þeir sjeu ekki kaupmenn.

Yfirleitt skilst mjer frv. sniðið sjerstaklega eftir Reykjavík, enda er það ekki óeðlilegt, þar sem Verslunarráðið hjer átti upptökin að því. En okkur í nefndinni finst holt að fara ekki of geyst á stað, heldur mætti herða á seinna.