07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

8. mál, verslunaratvinna

Sveinn Ólafsson:

Hæstv. atvrh. (MG) lagði á móti tveimur till. mínum á þskj. 470, við 4. og 11. gr. Jeg tók ekki eftir, að hann andmælti öðrum till. en þessum. 4. gr. frv. fer í þá átt, að ekki megi veita verslunarleyfi skipstjórum, hafnsögumönnum, embættismönnum o. s. frv. En hinsvegar er það ívilnun, að ráðherra geti veitt leyfið, ef hann álítur, að það geti samrýmst aðalstörfum þessara manna. Jeg hefi með 1. brtt. minni lagt til, að þessi undanþága verði veitt, ef bæjarstjórn eða sveitar mæli með því. Þetta er fyrir þá skuld, að bersýnilegt er, að ráðherra yrði að sjá með annara augum, og úrskurður hans færi eftir upplýsingum annara manna, sem vel geta verið litaðar á ýmsan hátt. Aftur á móti eru þau stjórnarvöld, sem jeg legg til, að ákveði þetta, altaf kunnug málavöxtum, enda mun það oftast snerta þau hvað mest. En öll greinin finst mjer nærgöngul, og hefði hún í rauninni mátt falla úr frv. Að vísu má álíta, að opinberir embættismenn eigi ekki við þetta að fást, og geti það ekki, en minni háttar starfsmenn geta venjulega sint slíkri aukaatvinnu án þess, að hún þurfi að koma í bága við aðalstörf þeirra.

Hæstv. atvrh. sagði, að ef þetta væri lagt undir ráðuneytið, mundi myndast föst regla um land alt, og myndi því ráðuneytið undir sömu skilyrðum æfinlega segja annaðhvort já eða nei. En úr þessu yrði handahóf.

Brtt. mín við 11. gr. lýtur að því að þrengja skilyrðin fyrir verslunarleyfi í sveit, sem sje, að slíkt leyfi sje bundið við ábúanda á jörð. Svo hefir jafnan verið frá 1879. Með lögunum frá 1879 var ekki beint ákveðið, að svo skyldi vera. En þar var ákveðið, að búandi, sem þýðir bóndi, gæti fengið rjett til að versla, þegar svo stæði á, og í framkvæmdinni hefir það altaf verið svo, að sá, sem fengið hefir sveitaverslunarleyfi, hefir orðið að hafa ábúð á jörðinni. Að minsta kosti er það svo þar, sem jeg þekki til, að hafi umsækjandi ekki haft jörð til ábúðar, hefir hann orðið að fá sjer jarðarpart.

Jeg sje ekki, að sýslunefndirnar geti farið lengra. Mjer finst þetta ákvæði vel viðeigandi. Það er ekki álitlegt, að aðrir en þeir, sem búsettir eru í sveitum, sjeu að þröngva sjer inn þar og versla. En ef verslunin gefur arð, þá er ávinningur, að maðurinn, sem verslar, sje búsettur í sveitinni. Jeg legg því áherslu á, að þetta ákvæði verði lögfest og þeirri reglu fylgt, sem gilt hefir að undanförnu.

Öðrum brtt. lagði hæstv. atvrh. ekki á móti. Hann skopaðist að vísu að þeirri brtt., sem haggar við 14. gr. og á að laga málið, en viðurkendi hana þó rjetta, og virtist mjer sem hann ætlaði sjer að greiða henni atkv., enda er hún óneitanlega til bóta og margir liðsmenn með henni vissir.