09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

8. mál, verslunaratvinna

Jakob Möller:

Jeg vil styðja að málaleitun hv. 2. þm. Reykv. (JBald), um að brtt. meiri hl. við 16. gr. sje borin upp á undan brtt. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) við 13. gr. Ef sá skilningur er lagður í 16. gr., að smásalar hafi þá ekki leyfi til að versla á fleiri stöðum en einum, ef hún verður samþykt, þýðir það mikla breytingu á frv. En ef greiða á atkv. um brtt. hv. þm. V.-Ísf. án þess að vita, hvernig um hina fer, komast menn í vandræði. En ef till. meiri hl. við 16. gr. er feld, yrði till. hv. þm. V.-Ísf. vafalaust samþykt. (TrÞ: Þetta er alveg rjett). Mjer finst óhjákvæmilegt að verða við þessari ósk. Jeg get vel ímyndað mjer, að þó að brtt. meiri hl. væri feld við 2. umr., þá verði hitt samþykt nú. En jeg verð að segja það, að með það fyrir augum, að stórsalar hafi leyfi til að versla í smásölu, er þetta tvent samfara varhugavert. Það er auðsætt, að stórsalinn hlýtur að standa betur að vígi í samkepninni, og er ekki hægt að fullyrða, að ekki stafi hætta af því, að hringar nái undir sig versluninni, t. d. hjer í Reykjavík. Ef heildsalar fá að selja í smásölu, álít jeg frekar ástæðu til að hugsa sig vel um, hvernig greidd sjeu atkv. um brtt. meiri hl. nefndarinnar við 16. gr.

Þrátt fyrir orðalag 10. gr., sem gefur í skyn, að smásalar megi hafa útsölu á fleirum stöðum en einum, tekur það af tvímæli um vilja deildarinnar, ef brtt. meiri hl. við 16. gr. verður feld.

Jeg álít rjettast að taka málið af dagskrá.