14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

8. mál, verslunaratvinna

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Frv. þetta, sem nú er komið hingað aftur eftir 3. umr. í hv. Nd., hefir, þrátt fyrir tilraunir hv. meiri hl. allshn. þar til að breyta því, tekið litlum verulegum efnisbreytingum frá því, er það fór hjeðan. Mætti helst telja það, að hv. Nd. hefir felt burtu árgjaldið, sem þessi hv. deild tók upp í frv., því eins og hv. þm. muna, þá var það ekki upphaflega í stjfrv. Það er því skoðun meiri hl. allshn. í þessari háttv. deild, að breytingar þær, sem orðið hafa á frv., geti ekki talist svo verulegar, að þeirra vegna sje ástæða til að hefta framgang þess. Að vísu væri það, eins og áður hefir verið tekið fram, að ýmsu leyti mjög þægilegt, að eitthvert árgjald væri ákveðið í lögunum, sjerstaklega með tilliti til þess, að þá hefði stjórnarráðið glögt yfirlit yfir þá, sem rækju verslun. Þar sem vitanlegt er, að ýmsir hafa fengið sjer verslunarleyfi, sem þó reka ekki verslun, gefur tala þeirra, er verslunarleyfisbrjef hafa keypt, ekki rjetta hugmynd um, hve margar verslanir sjeu í landinu.

Þá hefir talsvert verið reynt að hnekkja því leyfi, sem allshn. vildi láta veita heildsölum til að hafa einnig smásölu á hendi. Nú hefir hv. Nd. felt þá brtt. og hefir fallist á það sama í þessu efni og þessi hv. deild.

Jeg sje nú, að lögð hefir verið fram brtt. á þskj. 552, við 11. gr. frv., um skilyrðin fyrir að reka sveitaverslun. Er þar farið fram á, að samvinnufjelög sjeu undanþegin ákvæðum þeim, sem í 11. gr. standa. En ekki get jeg skilið, hvers vegna þau ættu að vera fremur undanþegin skilyrðum þeirrar greinar en aðrar verslanir. Verslun er altaf verslun, hvort sem fjelög eða einstaklingar reka hana, og ef sýslunefnd setur sig á móti því, að slík verslun verði sett á stofn, þá hljóta þau mótmæli eins að koma til greina gagnvart samvinnufjelögunum sem öðrum verslunarrekendum. En sjerstaklega finst mjer varhugavert að samþykkja þessa brtt. nú, því ef farið verður enn á ný að hrófla við frv. og senda það aftur til hv. Nd., þá er hætt við, að það nái ekki fram að ganga á þessu þingi. En það tel jeg illa farið, svo miklum tíma sem eytt hefir verið til að athuga það, bæði hjer í háttv. deild, og eins má sjá á brtt. þeim, er fram komu hjá hv. allshn. í Nd., að sú háttv. nefnd hefir ekki ætlað að sleppa frv. athugasemdalaust í gegnum þingið, þó fáum till. hennar yrði lífs auðið. Því væri mjög æskilegt, að málið yrði ekki tafið frekar, og leyfir meiri hl. allshn. sjer að leggja til, að það verði samþykt eins og það er.