12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurjón Jónsson:

Jeg vil aðeins skjóta nokkrum orðum til hv. fjhn., sem frv. þetta fær til meðferðar. Jeg er samþykkur hæstv. fjrh. (JÞ), að full þörf sje á að endurskoða tekju- og eignarskattslögin í heild sinni.

Það, sem jeg vildi skjóta til hv. nefndar, er atriði, er jeg sem yfirskattanefndarmaður hefi rekið mig á, að væri mjög ósanngjarnt í lögum þessum, en það er um námsfje.

Samkv. 13. gr. laga þessara er fje það, sem gengur til mentunar ungmennum, skattfrjálst, ef ungmennin eiga það sjálf, en ef feður þeirra eiga það, þá er það skattskylt. í þessu er ekkert samræmi; í báðum tilfellum á slíkt fje annaðhvort að vera skattfrjálst eða skattskylt. Og jeg hefi þá skoðun, að alt það fje, sem lagt er fram til mentunar og menningar æskulýð landsins, sje lagt fram til almenningsheilla. og til þess að gera þjóðina þróttmeiri og eigi alt að vera skattfrjálst. Að fje þetta er skattskylt hjá þeim foreldrum, sem senda börn sín til náms, hefir ekki svo lítil áhrif á skatt þeirra. Fyrst þegar jeg starfaði í yfirskattanefnd, talaði jeg um þetta ósamræmi við skattstjóra hjer, og taldi hann óumflýjanlegt, að þetta fje væri skattskylt; hjá því ákvæði laganna yrði ekki komist. En síðar hefi jeg frjett, að sumstaðar sje farið að draga þetta fje undan skatti. Þetta, ásamt fleiru, verður því mjög til þess að auka óánægju með þetta ákvæði laganna. Þótt ekki væri undanþegið skatti kostnaður sá eða fje það, er menn verja til mentunar börnum sínum, meðan börnin sjálf geta verið í foreldrahúsum, gengið á skóla heiman að frá sjer, heldur aðeins það fje væri undanþegið skatti eða skattfrjálst, sem lagt er út til mentunar ungmennum, sem eru fjarverandi heimilum sínum, þá álít jeg ekki, að slíkt ákvæði væri ósanngjarnt t. d. í garð Reykvíkinga, sem að mögu leyti standa betur að vígi með að menta börn sín.

Jeg vænti nú, að hv. fjhn. sjái, að hjer sje um verulegt ósamræmi að ræða, og taki þetta atriði því til nákvæmrar athugunar.