12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Baldvinsson:

Þegar verðtollslögin voru samþykt hjer í fyrra, var ekki að því spurt, hvernig gjaldþol manna væri, heldur voru lögin hömruð í gegn með það eitt fyrir augum að afla ríkissjóði tekna. En nú hefir það sýnt sig, að óþarft var að leggja á þennan þunga skatt. Og nú, þegar verið hefir veltiár hjá togaraútgerðinni, kemur fram frv. um að undanþiggja fiskiveiðafjelögin skatti. En frv. þetta er, eins og rjettilega tefir verið tekið fram, einn liður í stefnuskrá hæstv. stjórnar, sem hefir hag burgeisanna, en ekki almennings, fyrir augum. Það er því rangt, sem Morgunblaðið hefir sagt um hæstv. fjrh. (JÞ), að hann beri mjög hag almennings fyrir brjósti, því að þetta frv. sýnir hið gagnstæða, þar sem farið er fram á að undanþiggja þá skatti, sem grætt hafa miljónir á útgerðinni síðastliðið ár, en þunga skatta á nauðsynjum almennings á að framlengja, samkvæmt till. stjórnarinnar. Greinilegar en þetta er ekki hægt að marka stefnu íhaldsins.

Hæstv. fjrh. taldi mikla nauðsyn að koma frv. þessu í gegn nú. En hitt gleymdist honum að skýra, hve mikið tap ríkissjóður hefði af því, og hefði honum þó síst átt að vera það ofvaxið, þar sem hann, að dómi Morgunblaðsins, er sá mesti fjármálaspekingur, sem nokkurn tíma hefir fæðst í Norðurálfu heims.

Jeg ætla ekki að skjóta neinu til nefndar þeirrar, er fær þetta mál til meðferðar, en aftur vil jeg skjóta því til háttv. deildar að sálga frv. þessu nú þegar, því að það er maklegasta meðferðin á því.