18.04.1925
Neðri deild: 59. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2193 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Baldvinsson:

Jeg varð dálítið undrandi, þegar jeg sá, að hv. fjhn. hafði hugsað sjer að taka eitthvað af frv. þessu og samþykkja, og enn meiri varð furða mín, þegar jeg varð þess áskynja, að þrír hv. nefndarmenn vildu samþykkja frv. óbreytt. Því hefði jeg aldrei trúað um einn einasta hv. þm.

Mig furðar á þessu vegna þess, að frv. er, að mínu viti, einhver mesti óskapnaður, sem nokkurn tíma hefir skotið upp höfðinu hjer á Alþingi.

Frv. gengur í þá átt að undanþiggja að miklu leyti stórgróða síðastl. árs tekjuskatti. Mestur hagnaður þess árs hefir lent í vasa útgerðarfjelaganna, en þau eru langflest hlutafjelög. Þau hafa grætt of fjár, á íslenskan mælikvarða, á síðasta ári. Um það blandast engum hugur. En undir eins hleypur hæstv. stjórn til og vill nú letta af þeim skatti af þessum ágæta arði. En að ljetta skattinum af þessum fjelögum er sama og að íþyngja öðrum með sköttum. Það kemur fram á þann hátt, að annaðhvort verður gömlum skattaálögum ekki ljett af almenningi, eða bætt verður við nýjum sköttum. Slíkar afleiðingar eru óhjákvæmilegar, ef ríkissjóður missir þær tekjur, sem frv. vill svifta hann.

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir ekki þreyst á að lofa hástöfum sanngirni þessa frv., enda er það undan hans rifjum runnið. En þetta lof um sanngirnina kemur mjer dálítið spánskt fyrir sjónir, einkum eftir þeim lýsingum að dæma, sem hann sjálfur hefir gefið. Hann hefir skýrt frá því, að bankarnir væru fúsir til að hjálpa útgerðarfjelögunum um rekstrarfje, jafnvel þó á móti bljesi og teflt væri mjög á tvísýnu. Þessi fjelög eru þannig óskabörn auðvaldsins í landinu, þ. e. stjórnarinnar og bankanna. Þeim er haldið uppi, hvernig sem vindurinn blæs. (Fjrh. JÞ: Jeg sagði, að þeim hefði verið veittur gjaldfrestur á lánum sínum). Það er engin hætta á því, að svo verði ekki áfram, og því alveg ástæðulaust fyrir ríkissjóð að hlaupa undir bagga með fjelögunum þess vegna.

Þá talaði hæstv. fjrh. um, að togarafjelögin hefðu verið rekin með tapi undanfarið. Jeg minnist þess nú, að hæstv. ráðh. (JÞ) lýsti yfir því fyrir einu eða tveimur árum síðan, að togarafjelögin stæðu yfirleitt föstum fótum. Þeim skyldi þá hafa hrakað svo mjög á síðasta ári, að nauðsyn bæri til að gefa þeim eftir mikinn hluta rjettmæts tekjuskatts. Nei. hæstv. fjrh. er hjer kominn í ógöngur og berst meira af kappi en forsjá fyrir hönd togarafjelaganna, en gætir þess ekki, að hann hefir áður talað um afkomu þeirra í öðru sambandi.

Jeg hjelt satt að segja, að hv. fjhn. yrði sammála um að hafna þessu frv. algerlega, og er því undrandi yfir, að hún skuli vilja líta við því. Og þó að háttv. meiri hl. vilji ekki ganga að háskalegustu ákvæðum frv., þá vill hann eigi að síður ganga með að nokkru leyti og samþykkja nokkra liði 1. gr. En verri er þó afstaða hv. minni hl., sem vill samþykkja frv. óbreytt. Það er ófyrirgefanlegt.

En jeg þykist skilja, hvað á bak við liggur. Við höfum sjeð ýms önnur mál, sem ekki eru vinsæl nje líkleg til að hafa góð áhrif á hagsmuni almennings, ná samþykki við atkvgr. hjer í þinginu. Það er valdið, sem stendur á bak við hæstv. stjórn, sem neyðir flokksmenn hennar til að fylgja slíkum málum. (JAJ: Ósæmilegar dylgjur). Og eitthvað svipað má sennilega segja um þetta mál. E. t. v. hefir hæstv. stjórn hótað því að leggja niður völd, ef málið nái ekki fram að ganga, og flokkurinn beygt sig í auðmýkt fyrir þeirri hótun.

Um það hefir verið deilt, hvort útreikningar hv. nefndar væru rjettir eða ekki. Þeir eru tveir útreikningarnir, sem fyrir liggja, og ef annar er rangur, þá held jeg að þeir sjeu það báðir. (Fjrh. JÞ: Það er rjett; þeir eru báðir rangir).

Dæmi hæstv. fjrh. (JÞ) um, hvernig hái tekjuskatturinn geti leikið menn, er dálítið varhugavert, og hefir hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) greinilega sýnt fram á, hversu hlægilegt sje að halda því fram, að menn geti farið á höfuðið vegna þess að þeir græði 100 þús. kr. á einu ári. Verði menn gjaldþrota vegna þess, að þeir græða of fjár, en ekki af því að tapa árum saman, þá fer að verða lítið mark takandi á öllu því, sem mönnum hefir áður verið kent. Nei, þetta mun eitt af hinum þjóðfrægu reikningsdæmum hæstv. fjrh. (JÞ), sem hafa gert hann að einum allra slyngasta fjármálamanni álfunnar, eins og eitt aðalstuðningsblað hans komst að orði.

Þó tekur 2. gr. frv. út yfir allan þjófabálk. Hún er hið langvarhugaverðasta af mörgu vondu, sem í frv. stendur. Þar er fyrir því ráð gert að leggja á vald stjórnarinnar að veita einstökum mönnum ívilnun á tekjuskatti, ef þeir æskja þess. Þetta er svo háskalegt ákvæði, að furðu gegnir, að nokkur hv. þm. skuli vilja ljá því atkvæði. Að vísu er skiljanlegt, að hv. þm. geti treyst þeirri stjórn, sem þeir styðja, til að fara sæmilega með þetta vald, sem henni er þarna gefið, en hitt er mjer með öllu óskiljanlegt, að nokkur hv. þm. vilji gefa hvaða stjórn sem er slíka heimild, sem mjög er hætt við, að stjórnir muni nota til þess að ívilna sínum flokksmönnum sjerstaklega.

Jeg fyrir mitt leyti treysti nú alls ekki núverandi hæstv. stjórn til að fara með þetta vald. Jeg þykist sjá fyrir, að einkum muni það verða hennar stuðningsmenn, sem fá slíkar ívilnanir. Það vill svo til, að einmitt flestir þeirra, sem reka áhættusama atvinnu, eins og það er kallað, standa að hæstv. íhaldsstjórn, sem nú fer með völd í landinu. Þess vegna má nærri því segja, að ívilnun 2. gr. frv. sje gjöf til hæstv. stjórnar, sem hún skuli síðan deila meðal sinna ástkæru stuðningsmanna. Því ekki dettur mjer í hug að halda, að atvinna verkamanna og sjómanna verði talin áhættusöm, þó svo sje, þar sem þeir, einkum sjómenn, leggja ekki einungis fje í hættu, heldur einnig líf og heilsu. Það er þó engin hætta á því, að þeim verði gefinn eftir tekjuskattur af þessum sökum. Nei, það verða stórútgerðarmennirnir, sem eftirgjöfina fá, ef núverandi hæstv. stjórn fær að ráða.

Jeg er því eindregið á móti þessu frv. og álít, að það eigi ekki fram að ganga, hvorki á þessu þingi nje öðrum. Þennan draug ber að kveða niður til fulls nú þegar, og það svo eftirminnilega, að hann skjóti ekki upp höfðinu aftur, Frv. er aðeins hagsmunamál fárra stóreignamanna, og hefir hæstv. stjórn gengið erinda þeirra með því að flytja það hjer á þingi.

Það er engin sönnun fyrir því, að skýrsla þessa eina bankastjóra við annan bankann sje rjett, þó að hæstv. fjrh. (JÞ) láti mikið yfir henni. Fjelögin geta sjálf verið nauðulega stödd fjárhagslega, þó að hluthafarnir sjeu fullríkir, vegna arðs, sem þeir hafa fengið greiddan áður. Dæmi þessa hafa fundist. Þar að auki er ekki víst, að bankastjóranum sje í raun og veru jafnkunnugt um fjárhag fjelaganna og hann lætur í veðri vaka. Meðal almennings liggur orð á því, að togarafjelögin hafi geymt fje sitt í erlendum bönkum meðan ísl. krónan var að falla í verði.

Þessi efnahagsskýrsla er því mjög svo varhugaverð, enda þyrfti hún að vera meira en almenn umsögn, sem segir alt og ekkert og nefnir engar tölur, ef menn ættu að taka hana sem góða og gilda vöru.