06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg ætla að þessu sinni ekki að tala um till. hv. fjvn., og ekki heldur till. einstakra þingmanna, heldur geyma mjer það, og einungis gera grein fyrir 3 litlum brtt., sem jeg á á þskj. 290. Þær eru allar sama eðlis og fara einungis fram á að taka upp í fjárlagafrv. útgjöld, sem eru lögskipuð, og þess vegna verður ekki komist hjá að greiða, og hafa verið greidd að undanförnu. en talin þá í 24. gr. fjárlaga sem útgjöld samkvæmt sjerstökum lögum. Og þetta er rjett fyrsta árið, sem þessi gjöld falla á, að telja þau þannig, en síðar ber að taka þau upp í fjárlög, hvert á sínum stað.

Það er þá fyrst 10. brtt., við 12. gr., að þar verði tekin upp gjöld samkvæmt lögum frá 1923 um varnir gegn kynsjúkdómum. Upphæðin er sett 4500 kr., sem er næstum því sama og greitt var 1924, en það var fyrsta heila árið, sem þetta lagaákvæði var til framkvæmda.

2. brtt. mín er við 14. gr. A. Það er lítill útgjaldaliður samkvæmt lögum frá 1907, hluti ríkissjóðs af lífeyrisgjaldi presta. Þó að þetta sje lítil upphæð, þá á hún heima þarna, en hvergi annarsstaðar, og hefir verið greidd á hverju ári eins og lög standa til, en ekki enn tekin upp í fjárlög.

Loks er 3. till., við 18. gr. I, að þar verði bætt við nýjum lið, sem er lífeyrir fyrv. skrifstofustjóra Einars Þorkelssonar. 2500 kr. Á þessa upphæð kemur svo dýrtíðaruppbót. Þetta er ekki heldur neitt annað en að taka upp lögmælt útgjöld. Þessi liður er þannig ákveðinn í lögum frá 1923. að jeg ætla. En það virtist ekki rjett að stinga honum inn í neinn af öðrum liðum greinarinnar, af því að hann er sjerstaks eðlis, og taldi jeg því best að taka upphæðina sem sjerstakan staflið við 18. gr.

Enginn af þessum till. fer fram á neina breytingu aðra en þá, að láta útgjöld þessi koma í fjárlögunum.

Það væri ekki úr vegi að víkja örfáum orðum að síðustu brtt. hv. minni hl. fjvn. við 26. gr. Jeg tel brtt. þessa óþarfa, og ef hún er ekki óþörf. Þá mun hún einungis leiða til ágreinings og sundurþykkju. Það getur verið stundum vafamál, hvað eru fyrirheit Alþingis, en ef þannig er frá því fyrirheiti gengið, að það sjeu „gildandi ákvarðanir“, þá felst það í greininni eins og hún nú er, en ef það er ekki gildandi ákvarðanir, þá á það heldur ekki að vera í þessari fjárlagagrein. Því það er bein mótsögn í því að segja, að fjárveiting, sem ekki er ákveðin í gildandi ákvörðunum, eigi samt að gilda lengur en fyrir fjárhagstímabilið. Það verður einlægur misskilningur og ágreiningur út úr þessu orðalagi, svo framarlega sem litið er svo á, að það hafi einhverja þýðingu að bæta við greinina, því þá verður viðbótin að merkja eitthvað annað en það, sem á undan er komið í greininni. Og besta leiðin til þess að komast hjá slíku er, að þegar þingið hefir gefið eitthvert fyrirheit, þá sjái það svo um, að það sje gert með samningum milli ríkisstjórnar og hlutaðeiganda. Þá kemst aldrei ágreiningur að.

Að öðru leyti skal jeg láta bíða að ræða einstakar tillögur.