21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Jeg sagði um útreikning hæstv. fjrh. (JÞ), að í raunverulegum atriðum væri ekki hægt að setja svo upp þessi dæmi, að þó skakkaði ekki ávalt einhverju, ef fyrirkomulagi skattsins yrði breytt, en um þessa breyting frv. er óvíst, hvort hún mundi ekki hafa áhrif á útsvörin, sem einnig eru dregin frá skattskyldum tekjum, eins og skatturinn.

Hæstv. fjrh. kvaðst mundu láta sjer nægja þau rök, að meiri hl. nefndarinnar væri klofinn í þessu máli og lægi hið sanna mitt á milli þess, er um væri deilt. En meiri hl. nefndarinnar er alls ekki klofinn; hann er sammála í þeim atriðum, er mestu varða, að þetta yrði tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, og að þessi breyting verði til skaða þeim skattþegnum, sem síst skyldi. Mín sjerstaða er aðeins um það, hvernig þessu víkur við gagnvart hlutafjelögunum. Jeg verð að segja, að þessar röksemdir hæstv. fjrh. eru ekki annað en röksemdaþrot. Jeg tók það fram, að jeg hefði reiknað dæmi hv. minni hl. nákvæmlega með þeirri aðferð, sem hæstv. fjrh. vill láta nota, og jeg nefndi þá útkomu, sem jeg fjekk með þeirri aðferð. Hann segir útkomuna ranga, en hæstv. ráðherra hefir viðurkent, að hann hafi ekki reiknað þetta dæmi, og staðhæfing hans er því út í loftið. Jeg hefi þegar gert skýra grein fyrir þessu, og við þeim röksemdum mínum hefir ekki verið hróflað, enda er það ekki hægt. Það sannar ekkert í þessu efni, þótt fjelög þau, sem hlut eiga að máli, telji sig græða á breytingunni. Það er einungis af því, að þau hafa ekki kynt sjer málið nægilega vel.

Jeg gæti lesið upp miklu fleiri tölur en jeg hefi gert, máli mínu til sönnuuar, sem sje hvað skatturinn verður samkv. dæmi hv. minni hl. hvert ár samkv. meðaltalsreglunni og reikningsaðferð hæstv. fjrh. En hv. þm. geta alt eins reiknað út þær tölur sjálfir. Og ef þeir komast eftir samviskusamlegan reikning að annari niðurstöðu en jeg, þá geta þeir hrakið mínar tölur; að öðrum kosti verða þeir að láta sjer lynda minn útreikning.

Jeg fyrir mitt leyti get ekki lagt svo mikið upp úr því, þótt bankarnir mæli með frv. þessu. Jeg lít svo á, að þingið eigi hvorki að láta bankana nje aðra hafa áhrif á mál í þá átt, sem er til beins óhagnaðar fyrir ríkissjóð. Það er augljóst, að öflugri fjelögin geta grætt á breytingunni, en þeim er engin ástæða til að hlífa við skatti. Hins vegar er eins ljóst, að veikari fjelögunum er á engan hátt ívilnað með frv., og því verður breytingin þeim ekki til batnaðar.

Enn má geta eins atriðis í þessu sambandi. Hæstv. fjrh. talaði um, að frv. hefði þann kost í för með sjer, að tekjur ríkissjóðs yrðu jafnari. Já, þetta kann satt að vera, ef þessi skattur næst þú altaf inn. Svo mætti vel fara, að það fyrirtæki, sem umlíðan væri þannig gefin á skatti sínum í góðæri, eyddi öllum gróða sínum á næsta kreppuári og ætti ekkert til að lúka skuld sinni með, er til kæmi. Það er ekki líklegra að skattar náist eftir ár, er hundruð þúsunda hafa tapast, heldur en er hundruð þúsunda hafa græðst. Hvernig sem þetta horfir við fyrir fjelögunum, þá er hjer lítil trygging fyrir ríkissjóð. Hæstv. fjrh. tók það upp eftir hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að ef ekki yrði breyting nú á tekjuskattslögunum, þá yrði ekki úr miklu að moða á næsta ári. Það er nú hvorttveggja, að hæstv. fjrh. er spámannlega vaxinn, enda fer hann ekki dult með það. Auðvitað fer tekjuskatturinn eftir árferði, eins og að undanförnu. Vel má vera, að gróði fjelaganna í ár verði enginn eða mjög lítill, en þó efast jeg um, að ástæða sje til að ætla, að þetta ár verði mun lakara því í fyrra. Útflutningur sjávarafurða hefir orðið meiri það sem af er þessu ári en á sama tíma í fyrra, og þótt fiskverð hafi lækkað nokkuð, þá hefir útgerðarkostnaður gert það líka. Hinsvegar er það sannast að segja, að ef tekjuafgangur útgerðarfjelaganna á þessu ári verður ekki meiri en sem svarar mismuninum á skattinum samkv. gildandi lögum og samkv. þessu frv., þá verður tekjuskattur þeirra ekki stórvaxinn næsta ár hvort heldur er.

Hæstv. fjrh. sagði, að ekki væri æskilegt fyrir fjármálaráðherra, er sæti 1925, að rýra tekjurnar það árið, þótt þær ykjust 1926. Mjer datt nú aldrei í hug, að hann hefði borið þetta frv. fram sín vegna. En jeg held, að frv. sje til óþurftar þeim, sem það er ætlað að hjálpa, og sem helst þurfa hjálpar við, og ríkissjóði til skaða, og því mun jeg greiða atkvæði mitt gegn því og vona, að sem flestir aðrir geri það sama.