24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Háttv. þm. Dala. (BJ) segist hafa skilið mig svo við 2. umr. máls þessa, að jeg hafi sagt, að ríkissjóður tapaði engu við meðaltalsákvæðið um skattinn. Þetta er ekki rjett, því að jeg hjelt hinu gagnstæða fram. Það, sem vilt hefir hv. þm. Dala., er það, að jeg vjek einkum að þeirri hlið málsins, er að fjelögunum sjálfum snýr. Eins og sami hv. þm. (BJ) sagði, eru skattalögin ranglát í þessu landi, en eins og jeg hjelt fram og sýndi fram á, er þetta frv. einungis til að auka á það ranglæti. Frv. veitir þeim, sem hafa miklu úr að spila, allmikil hlunnindi, en íþyngir hinsvegar þeim, sem minni máttar eru. Hvort sem dæmi þau, sem meiri og minni hl. hafa sett fram, eru rjett sett upp eða ekki, þá bera þau það með sjer, að litlu fjelögin tapa á breytingunni en stóru fjelögin græða. Því tapar ríkissjóður á breytingunni, því þótt hann græði á litlu fjelögunum, vinst sá gróði upp og meira en það við tapið á stóru fjelögunum. Ranglætið í skattalöggjöfinni eykst því á ískyggilegan hátt.

Hæstv. fjrh. (JÞ) lagði mikið upp úr umlíðuninni á skattinum, og hv. þm. Dala. gerði hið sama. Jeg get hinsvegar ekki sjeð, að fjelögunum geti verið neinn hagur að þessari umlíðun á skuldum, sem hvort sem er ganga fyrir öllum öðrum skuldum til banka og annara. En bankarnir hafa fylgt þessari breytingu af því að þeir hafa álitið, að fjelögin græddu á breytingunni. Nú hefir verið sýnt fram á, að það eru aðeins stóru og vel stæðu fjelögin, sem græða, en þau þurfa ekki á þeirri ívilnun að halda, nje heldur getur skattgreiðsla þeirra haft nein áhrif á lánstraust þeirra hjá bönkunum. Jeg held til dæmis, að bankarnir myndu veita h/f „Kveldúlfi“ lán jafnt eftir sem áður, hvort sem þetta fjelag fengi umlíðun á 2/3 tekjuskatts yfirstandandi árs eða ekki.