24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2239 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg þarf að víkja nokkrum orðum til hv. þm. Dala. (BJ). Mjer þótti hann koma út í nokkuð óvæntum lit, þar sem ekki var til hans talað í ræðu minni. En hann þóttist þurfa að taka fram í vegna hinna stœrri flokka, líklega til þess að bera sættarorð á milli. En satt að segja flaug mjer í hug, að þetta stafaði af því, að honum hafi þótt sjer drukkið til með því, sem jeg sagði um Íhaldsflokkinn, og sannar það, að hann er, eins og marga hefir grunað, nokkuð nærstæður þeim flokki. Hv. þm. (BJ) tók það fram, að skattalögin frá 1921 væru fram úr öllu lagi ósanngjarnleg og ranglát. Jeg hefi ekki sagt, að þau lög geymdu alt rjettlæti í skattalöggjöf. Jeg bar þau aðeins saman við eldri skattalög og sagði, að þau tækju þeim mikið fram. Og við það held jeg, að flestir kannist. Hv. þm. (BJ) furðaði á því, er jeg nefndi frv. um korneinkasölu frá þinginu 1921 sem vott þess, að það þing hefði verið nokkru víðsýnna en síðari þing. Það er vitanlega álitamál, hvernig það verður metið. En þó bæði hv. þm. (BJ) og aðrir telji Framsóknarflokkinn fríverslunarflokk, þá er aðgætandi, að sú frjálsa verslun, sem þar er um að ræða, byggist á því, að þjóðfjelögin eru ekki alment þroskuð fyrir annað fyrirkomulag og verða þar um margt að dragast með fornar meinsemdir.

Hæstv. fjrh. (JÞ) átaldi mig fyrir það að hafa komið með dylgjur í garð stjórnarflokksins. Hvað eru dylgjur? Dylgjur eru hálfkveðin lastmæli, og eftir því að dæma hefir honum þótt jeg ekki vera nógu berorður! Annars reyndi jeg að haga orðum mínum þannig, að þau skildust vel. í öðru lagi sagði hann, að jeg hefði með orðum mínum verið að æsa menn til mótstöðu við stjórnina. Jeg held nú, að mín orð megi ekki meira en annara um alt það, sem á undan er gengið í þessu máli og öðrum, sem stjórnina snerta, og jeg hefi ekki tekið eins djúpt í árinni eins og sumir aðrir hafa gert. Hróður hæstv. stjórnar í þessu máli og öðrum hefir borist andstæðingum hennar án míns tilverknaðar, og ef æsingar gegn henni eru nokkrar, þá eru þær löngu eftir öðrum leiðum komnar. Annars vona jeg, að jeg fái gætt hófs í orðum mínum nú og gefi ekki tilefni til þess, að andúðin milli flokkanna aukist.

Hv. fjrh. lagði á móti brtt. á þskj 380, sem hv. 3. þm. Reykv. ber fram. Jeg verð að segja það fyrir mitt leyti, að þó nú till. nái ekki svo langt, sem þurft hefði til þess að skapa rjettlæti í þessari lagasetningu, þá er hún þó til töluverðra bóta, og ættu háttv. þdm. að samþykkja hana, þrátt fyrir þau vandkvæði, sem hæstv. fjrh. benti á að yfirskattanefndum stafaði af henni, og eins þótt handahófsleg kynni að verða framkvæmd þeirra á þessu. Það er með þetta eins og svo margt annað í skattalögunum, að með fljótlegri yfirsýn verður ekki ráðin bót á því, sem áfátt kann að þykja, því að smábreytingar geta ætíð skapað misrjetti og ósamræmi. Annars hefir hv. 1. þm. Árn. (MT) tekið þetta svo ljóslega fram, að jeg get sparað mjer að eyða frekar orðum að því.