28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jónas Jónsson:

Það er alkunnugt, að það hefir oft komið fyrir, að áhættufyrirtæki hafa farið um koll áður en þau greiddu skatta sína. Þarf jeg ekki annað en að nefna Carl Sæmundsen í því sambandi, sem fór á hausinn áður en að skuldadögum kom.

Það getur ekki verið rjett, að útgerðarfjelögunum sje ofviða að greiða þennan skatt í ár. Hvernig stendur á öllum togarakaupunum ? Þeir eru keyptir fyrir gróða að mestu leyti, en ekki lán. En á hinu þarf enginn að furða sig, þótt bankarnir hugsi um sjálfa sig í þessu máli. Þá eru vottorð tveggja bankastjóra úr tveim bönkum. Þau sanna ekkert annað en það, að bankastjórarnir vilja, að fjelögin sleppi við það að greiða af gróða sínum til landssjóðs, til hagnaðar fyrir bankana.

Hæstv. fjrh. hefir ekki svarað spurningum mínum viðvíkjandi skattaheimspeki hans nema óbeinlínis. Hann kveðst sætta sig við tolla á munaðarvörum, kaffi, sykri og tóbaki. En þetta er hreinn neysluskattur, að leggja toll á flestar þessar vörur, einkum í bæjunum. Kaffi og sykur er af fátæku fólki í bæjum notað jafnvel meira en margar aðrar útlendar vörutegundir. Við þessa skatta fellir hæstv. fjrh. sig vel, þó hann vilji ekki skatt á gróða, eins og frv. þetta ber með sjer. Það gladdi mig, að hæstv. fjrh. bar lof á samvinnulögin, af ástæðum, sem jeg skal ekki fara út í nú. Mega þeir taka sjer þetta til inntektar, sem fengust við þá lagasmíð. En fyrir sjálfan hann verður dýrðin minni, því hann barðist manna mest á móti þeim lögum með orðum og atkvæði.

Þá talaði hæstv. fjrh. um jafnaðarmensku mína; en hann hefði heldur átt að minna á jafnaðarmanninn hv. þm. Snæf. (HSteins), sem er sá eini þm. í þessari hv. deild, sem hefir þá æru að vera formaður í verkamannafjelagi. Og þar sem meiri hl. þessarar hv. deildar hefir kosið hann yfirmann sinn, þá eru a. m. k. 8 menn hjer, sem þannig hafa viðurkent skoðanir hans og fallist á hans jafnaðarpólitík.

Hæstv. fjrh. vildi síður heyra hjer siðferðisprjedikanir, og skil jeg það vel. Hann veit, að það á ekki sem best við að tala um viðskiftaheiðarleik í sambandi við þetta frv. Hann var hjer með dæmi um fjelag, sem eitt ár græddi 100 þús., er tapaði 100 þús. kr. næsta ár. Eins og hann setti dæmið fram, er þetta í rauninri hrein „spekulation“, og jeg sje ekkert á móti því, úr því talið er rjett, að landið græði á happdrætti, að það græði líka á þessu. Hitt er ekki rjett, að þetta sje eins og kaffi á fimtudag og laugardag; því kaffitollurinn er jafn á fimtudegi og laugardegi, og gelst jafnt þegar fólkinu líður vel og þegar því líður illa. Því hefði hæstv. fjrh. átt að segja: Eins og jeg vil hlutafjelögunum vel, eins vil jeg búa vel að fátæklingunum. En það er ekki því að heilsa. Hann sýnir aðeins, að hann er að hugsa um þessa hepnu „spekulanta“. Annars verð jeg, þar sem tíminn er búinn, að geyma ýms atriði til næstu umr.