13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2284 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jónas Jónsson:

Þegar þetta mál var her til umr. í gær, óskaði jeg þess, að hæstv. fjrh. (JÞ) ljeti mjer í tje heimildir þær, sem hann hefði viðvíkjandi enskri löggjöf um meðaltalsregluna um 3 ár. Hann svaraði því þá ekki, en jeg vildi mjög gjarnan, að hann gerði það, og ef hann getur ekki lagt fram neinar heimildir, þá skýri hann nánar frá einstökum atriðum í þessu efni. Það er langt frá mjer að gera lítið úr enskri löggjöf, en þó er þar ýmislegt, sem jeg vildi ekki taka upp í okkar löggjöf, svo sem það að miða útsvarsskyldu við húseignir.

Jeg skildi hæstv. ráðh. (JÞ) svo, að hann byggist við því, að málið mundi koma fyrir aftur, og er þá gott að þjóðin fái öll gögn á borðið nú þegar. En jeg vil nota tækifærið nú til þess að niinnast á meginatriði frv., því það er eflaust eitt af þeim frv., sem mesta atliygli hefir vakið. Hæstv. fjhn. veit það, að frv. um herinn, um afnám tóbakseinkasölunnar og um það að hjálpa Standard Oil til að ná hjer fótfestu aftur eru ekki vinsæl meðal borgaranna. En þó hefir mörgum fundist þetta frv. verst og óverulegast, og er þá mikið sagt um frv. þessarar stjórnar.

Það, sem hæstv. stjórn fer fram á, er að hækka ýmsa skatta, svo sem kirkjugjöld, berklavarnagjöld og skólagjöld, og líka að halda fast á verðtolli. Þessi skattapólitík stjórnarinnar er ekki ný, en hæstv. fjrh. hefir gengið lengra en áður hefir verið gert, því að hann hefir hlynt að verðtolli, sem er þyngsti skatturinn á mörgum heimilum. Fólk, sem stofnar heimili, þarf að kaupa margt, og þess vegna er þetta þrælaskattur á því, sem ekki á sinn líka áður. Menn hafa furðanlega sætt sig við þetta, og líka við kaffi- og sykurtollinn, í því trausti, að það sje meining stjórnarinnar að láta þá, sem græða, borga sinn skerf líka. En í þingbyrjun kemur hæstv. fjrh. fram með frv. um að ljetta á þeim, sem mest hafa notið góðærisins. Það vita allir, hvað á bak við liggur, því að hjer lá fyrir að gera þau endemi að bjarga undan skatti þeim, er mest græða. Á kreppuárunum 1921–’21 píndu ótal fátæk heimili sig möglunarlaust til þess að greiða tolla og skatta í ríkissjóð, en svo þegar uppgripagróði fellur í skaut vissra stjetta, býr hæstv. fjrh. til frv. um það að svifta ríkissjóð mörg hundruð þús. króna tekjum. Þetta hefir aldrei verið gert ábur. Ekki var talað um það að ljetta skatti af bændum á Austur- og Norðurlandi í fyrra, þegar þeir mistu í mörgum hjeruðum þriðjung lamba sinna. Það á ekki eingöngu að taka hlutafjelög undan, heldur er hjer farið fram á að gefa stjórninni heimild til að gefa eftir skatt einstökum mönnum. Menn hafa haldið fram, að hæstv. fjrh. (JÞ) beri frv. fram fyrir vissa flokksbræður sína, sem væntanlega hafa lagt fram fje í kosningabaráttunni. En hvernig fer? Í hv. fjhn. Nd. er dauft fylgi með a-lið framan af, en svo sækja stjórnarmenn í sig veðrið og flokkur Íhaldsmanna knýr þetta fram þvert ofan í öll mótmæli og rök.

Nú hjeldu allir, að eins og þessi hv. deild er skipuð, mundi málið fara sigurför hjer og hæstv. fjrh. gæti losað landið við 600 þús. kr. í ár. Þetta gekk nú vel framan. af, en þá kom fyrir atvik, sem rjett er að segja frá hjer, til þess að sýna, hvað stjórnarflokkurinn hjer er þjóðræknari en í hv. Nd.

Þetta er líkt og með sölu Vestmannaeyja, er hæstv. atvrh. (MG) kvað renna á sig tvær grímur með að selja. Þá dró einn af andstæðingum stjórnarinnar upp fasteignamatið, og kom þá í ljós, að eign sú, sem átti að selja fyrir 250 þús. krónur, var metin yfir 600 þús. kr. Var frammistaða ráðherrans reginhneyksli, enda dó frv. hægum dauðdaga í hv. Nd. Framkoma stjórnarinnar í báðum þessum málum er hliðstæð. Almannafje er kastað í hít sjerhagsmunanna. Ihaldsstjórnin þekkir sína vini. En galdurinn í þessu tekjuskattsuppgjafarmáli stjórnarinnar er sá, að einn Framsóknarmaður í nefndinni krafðist, að skattstjórinn í Reykjavík væri látinn reikna út, hver áhrif breytingin hefði á tekjur landssjóðs úr höfuðstaðnum. Taldi hann það allmikið verk, en hjet því þó, enda er hann duglegur rnaður. Þegar útreikningur próf. Einars Arnórssonar kom fyrir nefndina, urðu fylgismenn stjórnarinnar víst öldungis hissa. Annars hafði hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) komist að sömu niðurstöðu með líkindareikningi. En skattstjórinn bygði á framtalsskýrslunum sjálfum. Menn bjuggust við, að hæstv. fjrh. mundi gera sitt ýtrasta til að knýja þetta fram hjer í Ed., eins og hann gerði í Nd., en nú er orðið verra við það að fást fyrir hann, því að hjer eru þungvæg ný gögn komin fram í málinu. Hjer á að svifta ríkissjóð tekjum, sem nema um 600 þús. kr. á ári samkv. útreikningi Einars Arnórssonar. Með þessu fje hefði mátt höggva skarð í lausaskuldir ríkisins, sem fjrh. er að tala um að hann vilji grynna á. Það er því sýnilegt, að hann ætlast til, að þetta tvent fari saman, að grynna á skuldunum og minka tekjur ríkissjóðs. Þegar jeg hafði látið uppi, hver væri niðurstaðan í skýrslu próf. E. A. og þetta vitnaðist meðal þingmanna, rauk hæstv. fjrh. þegar í símann og spurðist fyrir hjá skattstjóra. Stjórnin hefir þá verið svo grunnfær, að hún hefir ekki haft hugmynd um afleiðingarnar af glapræði sínu. Ennfremur hefir það óhapp hent hæstv. fjrh., að í gær drápu allir flokksmenn stjórnarinnar, og hæstv. forsrh. (JM) líka, a.-lið 1. gr. með nafnakalli, og hafði þó hæstv. fjrh. (JÞ) lagt mikið kapp á að koma einmitt þessu atriði fram í Nd., og var honum sá liður aðalkeppikeflið í þessu máli. Það væri annars óskandi, að þeir flokksmenn hæstv. fjrh., sem á annað borð lesa þingtíðindin, vildu bera saman ræður hæstv. fjrh. í þessu máli í Nd. og í Ed., því þeir mundu verða að játa, að það er fyrst eftir meðferð málsins hjer í deildinni, sem maðurinn fer að sjá að sjer, og hefir því ef til vill hjervist ráðherrans í Ed. haft þau áhrif að vekja hjá honum einhvern vísi til föðurlandsástar. En það er miður viðkunnanleg aðferð hjá hæstv. fjrh., að þegar hann sjer, að hann verður að kúvenda í málinu, þá tekur hann tvo bankastjóra í Íslandsbanka og krossfestir þá í þingtíðindunum, með því að lesa upp tillögur þeirra hjer í deildinni. Sjerstaklega er það óviðkunnanleg aðferð, er allir flokksmenn hans hundsa þessar tillögur og fella þær, er þær eru bornar fram, og hæstv. forsrh. (JM) er jafnvel líka með í því að hrella þennan meðbróður sinn. Hinsvegar sýnist höf. frv. hafa fundið einhverja gleði í því að draga Claessen bankastjóra í ógæfuna með sjer. Það var annars ekki fjelegur vitnisburður, sem þessi kauplági bankastjóri gaf hlutafjelögunum; 1/3 þeirra á minna en ekki neitt, 1/3 þeirra á máske eignir, sem eru fyrir skuldum, og 1/3 á ef til vill eitthvað til fram yfir skuldir, ef skynsamlega væri á haldið. Það er því einna líklegust skýring á ofurást hæstv. fjrh. á hlutafjelögunum, að hann hefir fundið, að þeim er farið eins og ungbörnunum, að þau eru algerlega ósjálfbjarga, en eins og nú er komið, virðist þessi hlutafjelagaást snúast upp í útburðartilhneigingu, er Íhaldsmenn Ed. ganga frá barninu dauðu, barninu, sem þeir áttu að bjarga við og fóstra, en bera nú út á kaldan klakann. Jeg skal nú benda á fáeinar meginvitleysur í frumvarpinu. Fyrst að taka út úr vissa gjaldþegna, þ. e. hlutafjelögin, og láta ekki þriggja ára meðaltalsregluna ganga jafnt yfir alla. Þetta stafar auðsýnilega af hlutdrægni og er bersýnilega tilraun til að hjálpa þeim fremur en öðrum. Þetta er frekja og ósvífni, því lögin eiga að vera jöfn fyrir alla. í öðru lagi hefir hæstv. fjrh. ekki gáð að því, að reglan er sýnilega miðuð við tiltekin fjelög, helst þau, sem eldri eru, og sjerstaklega Kveldúlfsfjelagið, enda hefir einn forstjóri þess játað, að það hafi lagt stórfje í blað stjórnarinnar. Hjer á sýnilega greiði að koma á móti greiða. Það má ljóslega sjá, að Kveldúlfsfjelagið græðir á þessu fremur en önnur yngri fjelög. Nýstofnað fjelag, sem hefði t. d. keypt tvo togara á góða árinu 1924, eins og Kveldúlfur, og hefði aflað vel fyrsta árið, en síðan hefðu komið tvö slæm aflaár, færi óðar á höfuðið. Reglan hefði drepið slíkt fjelag, en eldra og sterkara fjelag græðir á breytingunni. Stjórnin hefir undirbúið málið svo illa, að hún hefir ekki tekið eftir því, hversu gífurleg hætta nýjum fjelögum getur stafað af 3 ára reglunni. Eða elskar stjórnin aðallega gömlu togarafjelögin? Í þriðja lagi hefir ráðherrann ekki hugsað út í, hvaða áhrif þetta mundi hafa á tekjuskattinn yfirleitt. Það er mjög mikið fje í veltu, sem rekið er undir nafni einstakra manna; t. d. hefir háttv. þm. Vestm. (JJós) ekki gagn af þriggja ára meðaltalsreglunni með verslun sína. En hver hefði orðið niðurstaðan, ef frumvarpið hefði orðið að lögum óbreytt? Eflaust gagnstætt því, sem nú er efst hjá þjóðinni, sem með skattalöggjöfinni hefir sýnt það, að hún vill ekki ýta undir hlutafjelagsmyndanir og hefir ákveðið dálítið þyngri skatt á þeim en einstökum mönnum. Þetta er og alveg rjettlátt. Það er alkunnugt, að hið mesta böl stafar þjóðinni frá vantandi ábyrgðartilfinningu hlutafjelaganna, því enda þótt til sjeu, sem betur fer, mörg ærleg fjelög, sem reka starfsemi sína með forsjálni, þá er þar þó opin braut fyrir fjárglæframenn að stofna til atvinnurekstrar í hlutafjelagsformi og stökkva síðan á braut frá ábyrgðum og skuldbindingum með fenginn ágóða. Þess vegna hefir þingið viljað gera hlutafjelagsformið óaðgengilegra, vegna hættunnar, sem stafað getur af glæfrum þeirra, og því ákveðið vægari skatt á einstökum mönnum. Ef illa fer, lendir tapið á bönkunum og öðrum viðskiftamönnum, en ýmsir hluthafar geta setið eftir óáreittir með mikinn ágóða. Þetta hefir hæstv. fjrh. annaðhvort ekki sjeð eða þá verið því samþykkur, þó ljótt sje. Þetta út af fyrir sig er nægilegur formgalli til þess að gera frv. óalandi, en þar við bætist, er hæstv. fjrh. þykist þurfa að láta leggja niður bjargráðafyrirtæki þjóðarinnar, steinolíuverslun ríkisins, sem allir vita, að ekki yrði til annars en að hleypa að aftur hringnum sæla, er áður rjeði hjer lögum og lofum í þeirri verslunargrein, en þar eru nokkrir menn nátengdir hæstv. fjrh. Það er líklega til að verðlauna þá fyrir framferði þeirra fyrrum, sem háttv. 1. þm. Rang. (EP) lýsti svo vel 1917.

Jeg sá, að hæstv. fjrh. var allalvarlegur á svip meðan jeg vjek að ósigri hans inn á við og út á við í ræðu minni áðan, en nú brosir hann, er hann heyrir, að minst er á Roekefeller. Skyldi hann gleðjast yfir væntanlegum hrakförum þeirra, sem hringurinn hafði áður leikið svo grátt?