13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2293 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Jeg bjóst ekki við, að jeg þyrfti að taka hjer til máls aftur. En út af ummælum hæstv. fjrh. um fyrverandi stjórn í þessu sambandi vil jeg segja nokkur orð.

Þegar stjórnin tók við 1922, var nýbúið að endurskoða skattalöggjöfina. Þá var engin vissa fengin fyrir því, hvernig hún gæfist. Var því eðlilegt, að stjórnin vildi bíða eftir niðurstöðunni. En hún sýndi, að skattalöggjöfin gaf minni tekjur en áður. Hæstv. atvrh. (MG), þáverandi fjármálaráðiherra, hafði og lýst yfir því, að ekki mætti íþyngja þjóðinni meira með sköttum. 1923 komu fyrst örðugleikarnir alvarlega í ljós. Hefi jeg oft áður skýrt rækilega frá því, hvernig stóð á því, að M. G. í sinni fjármálaráðherratíð varð svo lítið var við hallana, þó miklir væru, og mun jeg ekki endurtaka það hjer. Alt var gert, sem hægt var, til sparnaðar, og fyrirtæki jafnvel stöðvuð, og hvarvetna gætt hinnar ýtrustu varfærni. Þá kom stjórnin í byrjun þingsins 1924 fram með frv. um 25% gengisviðauka, enda þótt núverandi stjórn kæmi því frv. að vísu í gegn. Lögin um verðtollinn voru borin fram af fjhn. Nd. Þessi stjórn hefir því ekki aflað landinu tekna á annan hátt en þann, sem bent var á og undirbúið af fyrverandi stjórn. Hún útvegaði ennfremur 6 milj. kr. lán handa Landsbankanum, eða rjettara studdi að þeirri lánveitingu, og þá var tilætlunin, að lausaskuldir við bankann skyldu festast. Það var því fyrverandi stjórn, sem var búin að slá því föstu að festa skuldirnar og að hins ýtrasta sparnaðar þyrfti að gæta í meðferð landsfjár. Það var á hennar tímum, að hinn alvarlegi snúningur varð í fjármálunum og augu manna opnuðust fyrir því, hvert stefndi.

Nú hefir forsjónin sent þetta gæðaár, 1924, þegar ágóðinn af ríkisbúskapnum varð meiri en allar skuldir ríkissjóðs. Það er ómögulegt að þakka stjórninni þetta en forsjóninni ber að þakka það. Það er ljett að vera fjrh. í slíku árferði. En 1923 var öldin önnur. Þá var um verulega örðugleika að ræða. Fyrv. stjórn hafði sýnt hinn ýtrasta vilja til sparnaðar, og því verður ekki neitað, að hún var úrræðagóð til að ráða fram úr vandræðunum. Hæstv. fjrh. er væntanlega nú búinn að sjá, hvað örðugt er að ráða við fjárlögin, því altaf sýnist mjer sparnaðarsvipurinn á þeim vera að minka á þessu þingi.

Jeg hefi þá svarað hæstv. fjrh. nægilega fyrir hönd fyrverandi stjórnar og vona, að jeg hafi fyllilega sýnt fram á, að hún gerði það, sem hún gat, til eflingar og viðreisnar fjárhagnum á þeim erfiðu tímum, sem þá stóðu yfir.