13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. 5. landsk. vildi bera blak af fyrverandi fjrh. Framsóknarflokksins, sem hafði stjórnað 1922, með því, að mínir samherjar hefðu tekið við fjárlögunum fyrir 1922. En tölurnar, sem jeg var búinn að hefja fram, sýna það, að það, sem stjórnin 1922 brúkaði utan fjárlaga og umfram fjárlögin, nemur meiri upphæð en allur tekjuhalli ársins, þannig að ef stjórnað hefði verið eftir þeim fjárlögum, sem mínir samherjar tóku við, þá hefði enginn tekjuhalli orðið. (JJ: Var enginn tekjuhalli á þeim?). Jeg hefi ekki frv. fyrir framan mig, en hann var máske einhver; en jeg hygg þetta sje samt rjett, að það hefði enginn tekjuhalli orðið, ef gjöldunum hefði verið haldið í því horfi, sem fjárlögin ætluðust til. Þó fjárlögin væru áætluð með tekjuhalla, þá urðu tekjurnar það mikið fram úr áætlun, að nægt hefði. Ef einhver stjórn á hjer sök, er það auðvitað sú stjórn, sem framkvæmdi fjárlögin.

Þá nefndi hv. þm. fjáraukalögin miklu, og mintist þar með á eina af þeim mestu blekkingum, sem blað hans hefir flutt, þegar farið var að gera það að ásökunarefni á stjómina, að þingið 1919, sem samdi fjárlögin fyrir 1920 og 1921, umsteypti jafnframt allri launalöggjöf landsins á þann hátt, að mikill þorri gjaldanna var ekki tekinn upp í fjárlagagreinirnar sjálfar, heldur átti að greiðast samkv. þeirri fjárlagagrein, sem síðan er tekin upp sundurliðuð í aukafjárlög. Þessi blekking var fram borin sem tilraun til þess að álasa stjórninni fyrir það, að hún inti af hendi lögmælt útgjöld.

Þá talaði hv. þm. um það, að jeg hefði verið að afneita samherjum mínum, og vildi halda því fram, að í Íhaldsflokknum væru allir þeir sömu menn og í Heimastjórnarflokknum áður. Mætti jeg minna þennan háttvirta sagnaritara á það, að 2. þm. Árn. (JörB), sem nú er í Framsóknarflokknum, og síðasti fjármálaráðherra þessa lands (KIJ), þeir voru báðir í Heimastjórnarflokknum fyr á árum; einnig herra landsverslunarforstjóri Magnús Kristjánsson, sem ekki er talinn ómerkur liðsmaður Framsóknarflokksins. Og aðalritstjóri Framsóknarflokksblaðsins, sem nú er þm. Str. (TrÞ), hann var einnig, þó ungur væri, liðsmaður í þeim sama flokki.

Þetta ætti væntanlega að nægja til þess að sýna það, hvort í Íhaldsflokknum í hv. Nd. sjeu allir sömu menn, sem áður voru í Heimastjórnarflokknum. Svo mætti vitanlega halda áfram með því að telja þá menn, sem eru nú í Íhaldsflokknum en voru ekki áður í Heimastjórnarflokknum. Jeg skal einungis nefna í þessari deild hv. 2. þm. G.-K. (BK) og hv. þm. Vestm. (JJós), og í Nd. hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Jeg gæti talið marga fleiri, en þessi upptalning nægir til að sýna og sanna, hversu hv. 5. landsk. er ósýnt um að vita rjett um og segja satt frá samtímaviðburðum. Það færi betur, að honum hafi tekist betur við bækur sínar, sem hann segir, að sjeu mikið lesnar, og er það ánægjulegt fyrir hann. Hitt er jafnánægjulegt fyrir mig; að hann segist ekki hafa lesið mína bók, af því að honum hafi fundist hún svo heimskuleg. En af hverju fanst honum bókin heimskuleg? Hann virðist hafa orðið einhvers vísari um efni hennar án þess að lesa hana.