06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

1. mál, fjárlög 1926

Sigurjón Jónsson:

Jeg á á þskj. 290 litla brtt., XXVII. lið, sem fer fram á, að styrkurinn til kvenfjelagsins Ósk á Ísafirði til húsmæðrafræðslu verði hækkaður úr 2000 í 2500 kr. Fjelagið hafði sótt um 5000 kr. styrk, sem hv. fjvn. tók til greina að því leyti að leggja til að veita því 2000 kr., sem og var samþykt við 2. umr.; en tillaga frá mjer um að hækka styrkinn upp í 3000 kr. fjell þá með litlum atkvæðamun. Vegna þess hve litlu munaði, er sú till. mín fjell, sýndist mjer rjett að bera fram þessa litlu brtt., að færa styrkinn upp í 2500 kr., eða helming þess, sem fjelagið bað um.

Jeg sje ekki, að ástæða sje til að fjölyrða mikið um þetta, en jeg geri ráð fyrir, að háttv. deild sje mjer samþykk í því, að fáar tegundir fræðslu sjeu nauðsynlegri og þjóðinni í allan stað gagnlegri en sú fræðsla, sem veitt verður ungum stúlkum til þess að gera þær færari um að verða nýtar og góðar húsmæður. Þessarar fræðslu mun víða vera þörf, en þó mun hennar mest þörf vera í sjávarþorpum, þar sem mikið los er komið á fólkið og alla háttu þess. Jeg er ekki að biðja háttv. deild að samþykkja þetta, en hitt bið jeg um, að það verði athugað, til hverra hluta þessum styrk verði varið, og þá er jeg ekki í neinum vafa um, að því fje verði talið vel varið, sem fer til þeirrar fræðslu, sem best verður talin og hagnýtust, sem er að gera húsmæðraefnin sem best að sjer á þeirra verksviði.

Jeg vil svo aðeins víkja nokkrum orðum að brtt. frá háttv. fjvn. á þskj. 290, XXXVIII, þar sem nefndin leggur til, að fiskiyfirmatsmennirnir fái í launauppbætur alls 8200 kr. Þessi upphæð er tekin upp samkvæmt till. sjútvn. og er sú lægsta upphæð, sem sjútvn. gat sætt sig við að fá veitta. Hv. þm. Dala. (BJ) bar fram við 2. umr. brtt. um miklu hærri upphæð, sem fjell með litlum atkvæðamun, en því leiðinlegra væri þá einnig, ef þessi brtt. yrði heldur ekki samþykt. Eins og hv. frsm. fyrri hluta fjárlagafrv. (ÞórJ) sagði í ræðu sinni, er þessum öðrum aðalatvinnuvegi vorum bráðnauðsynlegt, að þessir menn fái þau laun, að hægt verði að halda þeim við þessi störf, og í öðru lagi er nauðsynlegt, að fyrir því sje sjeð, að þessir menn þurfi ekki að leita sjer að aukastörfum til að lifa af, og jeg mæli því sem best með þessari brtt. háttv. fjvn. fyrir mína hönd og sjútvn.