07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

1. mál, fjárlög 1926

Björn Líndal:

Hv. frsm. (ÞórJ) hefir misskilið mig. Jeg sagði, að stundum yrði að nota sóttvarnarhúsið á Akureyri, sem bæði fennir og rignir inn í, til þess að koma þar fyrir sjúklingum, sakir þrengsla í sjúkrahúsinu. Um læknana þarf jeg ekki að tala frekar. Jeg þóttist tala þar svo varlega, að jeg sje ekki ástæðu til að taka neitt af því aftur. Mjer er persónulega kunnugt um, að margir læknarnir eru ágætismenn, en jeg álít þá ekki svo hátt yfir aðra menn hafna, að þeir kunni ekki að geta látið freistast af þeim þessa heims gæðum, sem meistari Jón kallar hinn þjetta leir.

Mjer virðist ekki blása byrlega fyrir brtt. minni, þar sem jeg fer þess á leit, að ríkið ábyrgist alt að 150000 kr. lán fyrir Akureyrarkaupstað. Jeg leyfi mjer að fullyrða, að það sje algerlega áhættulaust fyrir þingið að samþykkja þetta, þar sem Akureyrarkaupstaður er svo fjárhagslega vel stæður, að aldrei getur verið að tala um neina byrði fyrir ríkissjóð af þessari ábyrgð. Kaupstaðurinn á nú kost á hagkvæmu láni og mjög hóflegum vaxtakjörum, ef ríkissjóðsábyrgðin fæst. En ef hún fæst ekki, er ver farið en heima setið, því að slík neitun getur gert lánveitendurna tortrygga að ástæðulausu og öll lánskjörin erfiðari. Akureyrarkaupstað er brýn þörf á þessu láni, til þess að stækka og bæta skipakví, þar sem skip geta legið tryggilega yfir veturinn. Þeim fjölgar stöðugt þar fyrir norðan, og ekki er unt að setja nema fá þeirra á land, og þau minni. Jeg á bágt með að trúa því, að þessu verði neitað, þar sem það er svo gersamlega áhættulaust að samþykkja það.

Hvað búnaðarfjelögin snertir, get jeg tekið undir það, sem hv. þm. Dala. (BJ) sagði, að þessi styrkur hefði altaf gert mikið gagn og hvatt bændur til verklegra framkvæmda. Þessi fjárupphæð er ekki stór, og henni væri áreiðanlega betur varið til frekari styrktar búnaðarfjelögunum heldur en til hækkunar á styrknum til Búnaðarfjelags Íslands. Fje til þess hefir mjer fundist oft koma að litlu gagni, eða að minsta kosti ekki að eins miklu gagni og æskilegt er og við hefði mátt búast. Fer þar miklu meira en góðu hófi gegnir í stjórnarkostnað og ýmiskonar skriffinsku.